Skip to main content

Sveitarfélögin vilja að Hamarsvirkjun verði tekin úr verndarflokki

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2025 16:48Uppfært 27. mar 2025 16:49

Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð krefjast endurskoðunar á ákvörðun um að setja Hamarsvirkjun í verndarflokk Rammaáætlunar, en náttúruverndarsamtök fagna ákvörðuninni. Verkefnisstjórn Rammaáætlunar telur virkjunina hafa neikvæð áhrif á víðerni og samfélag meðan talsmenn sveitarfélaga segja orkuskort hamla atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi á Austurlandi.

Sveitarfélög berjast fyrir orkuöryggi á meðan náttúruverndarsamtök fagna


Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Múlaþing, ásamt stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), hafa sent inn athugasemdir við tillögu verkefnisstjórnar 5. áfanga Rammaáætlunar um að setja Hamarsvirkjun í verndarflokk.

Fjarðabyggð segir í umsögn sinni: „Fjarðabyggð leggst alfarið gegn því að jafn mikilvægur og hlutfallslega stór virkjanakostur verði felldur í verndarflokk þegar jafn brýn þörf er fyrir orku á svæðinu og um mikilvæga innviði að ræða til að tryggja orkuöryggi landsins."
Hamarsvirkjun, sem áætlað er að yrði 60 MW að afli, er fyrirhuguð á vatnasviði Hamarsár í Hamarsfirði. Orkuframleiðslufyrirtækið Arctic Hydro hefur sóst eftir að byggja virkjunina og hefur samið við CIP, sem stendur að baki áformum um rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði, um að virkjunin geti nýst sem jöfnunarafl.

Orkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu á Austurlandi


Fjarðabyggð bendir á að orkuskortur á svæðinu hamli atvinnuuppbyggingu og þeim atvinnugreinum sem fyrir eru. Sveitarfélagið vísar sérstaklega til þess að fiskimjölsverksmiðjur í sveitarfélaginu neyðist til að brenna allt að 120.000 lítrum af olíu þá daga sem þær eru í rekstri vegna orkuskorts.

Sveitarfélagið bendir einnig á mikilvægi jöfnunarafls sem vatnsaflsvirkjun á borð við Hamarsvirkjun getur veitt, sérstaklega í tengslum við sveiflukennda orkugjafa eins og vind, sól og sjávarföll. Þá telja forsvarsmenn sveitarfélagsins virkjunina vera vel staðsetta gagnvart dreifikerfi Landsnets.

Deilur um umhverfisáhrif og flokkun virkjana


Bæði Fjarðabyggð og SSA gagnrýna verkefnisstjórn Rammaáætlunar fyrir ójafnræði í mati á virkjunarkostum. Þau halda því fram að Hamarsvirkjun fái lægri einkunn en aðrir virkjunarkostir við sambærilegar aðstæður. SSA bendir sérstaklega á að bætt aðgengi almennings með vegslóðum sé talið neikvætt við Hamarsá en jákvætt annars staðar.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur annan pól í þessa hæð og telur að náttúruþátturinn hafi ekki verið nógu hátt metinn í flokkun annarra virkjunarkosta. Bæði Fjarðabyggð og SSA telja að orkuöryggi og þarfir atvinnulífs á svæðinu fái of lítið vægi í mati verkefnisstjórnarinnar.

Ekki samhljómur innan sveitarfélaga


Málið er þó ekki óumdeilt innan Múlaþings. Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Vinstri grænna og formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands, lýsir ánægju með flokkunina í verndarflokk. Hún bendir á að virkjunin sé umdeild í samfélaginu og að ósnortin víðerni á Austurlandi séu orðin takmörkuð.

Pétur Heimisson, varafulltrúi VG í sveitarstjórninni, tekur í sama streng og segir í umsögn sinni: „Sú klunnalega vegagerð sem fylgir svona virkjun veldur ein og sér stórkostlegu raski á viðkvæmri og einstakri náttúru." Hann telur að lítil umferð mannfólks á svæðinu réttlæti ekki fórn þess þar sem aðrar lífverur þrífist þar vel, meðal annars hreindýr.

Orkuöryggi á Suðausturlandi í húfi


Kristinn Pétursson, fyrrum þingmaður og vélfræðingur með réttindi til starfa við raforkukerfi, segir Hamarsvirkjun nauðsynlega til að styrkja orkuöryggi á stóru svæði. Hann bendir á að á svæðinu frá Sigöldu að Egilsstöðum sé engin innmötun á raforku í flutningskerfið, sem geri Hamarsvirkjun vel staðsetta til að bæta úr því.

Kristinn lýsir efasemdum um að nýtt tengivirki á Hryggstekk í Skriðdal, sem áætlað er að verði tilbúið árið 2027, skili öllu því öryggi sem þörf er á. Því telur hann Hamarsvirkjun vera öruggari lausn.

Náttúruverndarsamtök gagnrýna virkjunaraðila og ráðgjafa


Landvernd fagnar því að virkjun Hamarsár sé slegin af og lýsir því sem „löngu tímabærri niðurstöðu." Samtökin segja að með því sé því takmarkaða svæði hlíft sem eftir sé á Hraununum sem telja megi vera lítt snortið.

Stór hluti umsagnar Landverndar beinist að gagnrýni á verkfræðistofuna Eflu og lögmannsstofuna Sókn, sem unnið hafa með Arctic Hydro að verkefninu. Landvernd lýsir undrun á athugasemdum Eflu sem auglýsir sig fyrir að vinna með hlutlægum hætti en hafi gerst virkur þátttakandi í málinu.

Landvernd hafnar því að orkuskortur sé á Austurlandi og bendir á að orkuframleiðsla þar sé sú mesta á íbúa á viðlíka svæði í heiminum. Samtökin furða sig einnig á fullyrðingum sveitarfélaga um að virkjunin sé ekki umdeild og segja samfélagið enn vera í sárum eftir hatrammar deilur um Kárahnjúkavirkjun.

Hraun inn af Hamarsdal. Mynd: Andrés Skúlason

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.