Styðja suðurveglínu að Egilsstöðum frá munna Fjarðarheiðarganga

Allir nema einn í sveitarstjórn Múlaþings lýstu yfir stuðningi sínum við það mat Vegagerðarinnar að svokölluð suðurleið sé fýsilegasti kostur veglínu að Egilsstöðum frá munna Fjarðarheiðarganga þegar þar að kemur.

Matsskýrsla Vegagerðarinnar var rædd á síðasta fundi sveitarstjórnar en sérfræðingar Vegagerðarinnar hafa síðustu ár farið gaumgæfilega yfir þá þrjá veglínukosti sem komið hafa til greina héraðsmegin Fjarðarheiðarganganna.

Kostirnir þrír voru norðurleið, miðleið og suðurleið, sem sjást á meðfylgjandi korti, og lýstu níu af tíu sveitarstjórnarmönnum yfir stuðningi sínum. Bókaði sveitarstjórn að Skipulagsstofnun hraði afgreiðslu umsagnar vegna umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar svo hægt sé að fara sem fyrst í kynningarferli til almennings.

Þröstur mótfallinn

Þröstur Jónsson, Miðflokki, var sá eini sem var mótfallinn og benti á að ekki aðeins væri með suðurleiðinni verið að ganga á eitt besta og dýrmætasta byggingarland bæjarins heldur og væri lítið tillit tekið til náttúrunnar á svæðinu en svæðið eitt fárra þar sem blæösp vex og dafnar en sú tegund er á válista. Lét Þröstur í ljós undrun á slíkri bókun sveitarstjórnar áður en endaleg skýrsla væri komin út.

Ekki endanleg afstaða

Stefán Bogi Sveinsson, Framsóknarflokki, benti á að þó sveitastjórn hafi bókað stuðning við tillögu Vegagerðarinnar væri ekki þar með sagt að sú afstaða gæti ekki breyst þegar ferlið færi lengra og athugasemdir bærust.

„Að mínu viti eru stóru tíðindin í þessu þau að Vegagerðin er að leggja til að þjóðvegurinn fari ekki um Fagradalsbraut og það þurfti nú eiginlega að segja mér það þrisvar. Ég reiknaði aldrei með því að Vegagerðin tæki undir þetta sjónarmið sem hefur verið uppi hjá sveitarstjórn hér býsna lengi, að þjóðvegurinn eigi að fara hér framhjá megin þéttbýlinu. Sveitarstjórnir hér hafa áður gert ráð fyrir þessu en Vegagerðin aldrei fallist á það sjónarmið fyrr en núna.“

Norðurleiðin (ljósblá lína) kemur niður norðaustan við Miðhús, þaðan að Eyvindará og fylgir ánni að mestu áður en sveigt er yfir hana, áfram yfir Melalón og tengist svo þjóðveginum skammt austan við flugvöllinn.

Miðleiðin (bleik lína) er að mestu leyti óbreytt ástand. Frá gagnamunna liggur leiðin gróflega eftir núverandi þjóðvegi og gegnum bæinn um Fagradalsbraut.

Suðurleiðin (rauðleit lína) fylgir sömuleiðis þjóðveginum að hluta en sveigir til suðurs áður en í bæinn er komið. Hún liggur rétt ofan við Löngutjörn og Ólafarholt og gegnum Lambhúsamýri áður en tengst er við Skriðdals- og Breiðdalsveg tæpum kílómetra til suðurs af bænum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.