Svekktir yfir litlum efndum ríkisins

kurlkyndistod_hallormsstad.jpgGuðmundur Davíðsson, stjórnarformaður Skógarorku sem rekur kurlkyndistöð á Hallormsstað segir það vonbrigði hversu litlar efndir hafi orðið á fögrum fyrirheitum ríkisvaldsins um stuðning við stöðina. Notendur hennar njóta ekki sömu niðurgreiðslu og aðrir.

 

Frá þessu er greint í nýjasta fréttabréfi Skógræktar ríkisins. Guðmundur segir að orka frá stöðinni hafi verið seld á 7,8 kr/kwst sem þyki nokkuð hátt verð hérlendis, þar sem orkuverð er eitt það lægsta í heiminum.

„Það sem við erum að bíða eftir núna er að viðskiptavinir kyndistöðvarinnar fái sömu niðurgreiðslu vegna húshitunarkostnaðar og þeir sem kynda hús sín með rafmagni. Við höfum fengið 8 milljón kr. styrk til að koma verkefninu, sem kostar um 42 milljónir kr., af stað.

Orkuverð hér á landi er með því lægsta sem gerist í heiminum. Þessa húshitunaraðferð verður að niðurgreiða líka til að við séum samkeppnishæf. Dæmið liti auðvitað allt öðruvísi út ef við gætum skilað ódýrari orku inn í húsin til viðskiptavina okkar. Stjórnvöld verða að skilja þetta.”

Undirtektir ráðamanna voru mjög góðar þegar við kynntum kyndistöðina á sínum tíma. Við opnunina töluðu menn mikið um frumkvöðlastarfsemi, umhverfisvernd og spennandi verkefni. Áhuginn virtist vera mikill og því hefur það valdið okkur sárum vonbrigðum hvað efndirnar hafa verið litlar, bæði hvað varðar niðurgreiðslu og frekari styrki til verkefnisins.”

Í nóvember árið 2009 var fyrsta kurlkyndistöð til húshitunar á Íslandi vígð á Hallormsstað. Stöðin notar viðarkurl úr nærliggjandi skógi og þjónar í fyrsta áfanga grunnskóla, íþróttahúsi, sundlaug og hóteli. Að kyndistöðinni koma ýmsir aðilar en hún er í eigu Skógarorku, hlutafélags sem stofnað var sérstaklega í kringum rekstur hennar.

Hugmyndir eru uppi um fleiri kurlkyndistöðvar á landinu og til stendur að tengja alla byggðina á Hallormsstað við kyndistöðina. Guðmundur segir stöðina hafa staðist allar þær væntingar sem til hennar voru gerðar og stöðvar sem þessi séu „prýðileg lausn á köldum svæðum.“

Fyrsta árið voru keyptir um 1.500 rúmmetrar af kurli úr Hallormsstaðarskógi fyrir um fjórar milljónir króna. Það er heldur meira en búist var við. Öll grisjun og kurlun fyrir stöðina eru unnar af verktökum og er hún því beinlínis atvinnuskapandi fyrir svæðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.