Skip to main content

Svo gott sem engir nýta sér ókeypis strætóferðir til og frá Egilsstaðaflugvelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. júl 2025 14:48Uppfært 24. júl 2025 14:57

Þrátt fyrir megna óánægju þúsunda Austfirðinga með bílastæðagjöld við Egilsstaðaflugvöll sem tekin voru upp í fyrrasumar sýna því afskaplega fáir áhuga að nýta sér ókeypis strætóferðir til og frá flugvellinum.

Það var snemma í sumar sem fyrirtækið Sæti ehf. hóf í tilraunaskyni fyrir hönd Múlaþings að aka strætisvagni þeim er fer reglulega milli Egilsstaða og Fellabæjar til og frá flugvellinum sem hluta af leiðakerfinu en það var í allra fyrsta skipti sem strætóferðir hafa verið í boði til og frá þessari stærstu samgönguæð Austurlands.

Slík þjónustu býður upp á að fólk í grenndinni, á Egilsstöðum og í Fellabæ, getur skilið bíla sína alfarið eftir heimavið ef flug er fyrir dyrum meðan þeir sem lengra eru að komnir geta lagt bílum sínum fjarri vellinum, tekið vagninn og þannig sparað sér töluverðar upphæðir í bílastæðagjöld.

Hverju sem um veldur hefur áhuginn hingað til verið lítill sem enginn að sögn Hlyns Bragasonar, eiganda Sætis ehf., en þar sem aðeins er um að ræða tilraunaverkefni í sumar og notkunin næsta engin telur hann ekki ólíklegt að flugvallarakstrinum verði hætt þegar vetraráætlun strætó á Héraði tekur gildi.

„Það kæmi mér ekki á óvart því þessari tilraunakeyrslu var ætlað til að kanna áhugann og ef hann er ekki til staðar þarf varla að hafa fleiri orð um það. Okkur er einmitt uppálagt að taka saman farþegatölur til og frá vellinum og samkvæmt bílstjóranum mínum fyrir viku síðan höfðu þrír einstaklingar nýtt sér þjónustuna hingað til í sumar. Ég skal ekki segja hvort þetta hafi einfaldlega ekki verið auglýst eða kynnt nægilega vel en þetta er heldur döpur útkoma.“