Skip to main content

Sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað eiginkonu sinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. júl 2023 10:31Uppfært 27. júl 2023 10:31

Héraðsdómur Austurlands hefur sýknað karlmann af tveimur ákærum um nauðgun í garð þáverandi eiginkonu sinnar. Dómurinn taldi ekki fulla sönnun liggja fyrir í málinu.


Maðurinn var annars vegar ákærður fyrir að hafa samræði við konuna í sturtu á heimili þeirra, þótt hún hefði áður neitað umleitunum hans um kynlíf. Nokkrum mánuðum hafði hún vaknað við fingur hans í leggöngum sínum. Í millitíðinni var hann þó farinn af heimilinu. Samgangur þeirra hélt þó áfram í nokkra mánuði þar á eftir, þótt lögskilnaður væri genginn í gegn.

Í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu sagðist maðurinn hafa skynjað að fyrra atvikið væri gegn hennar vilja en hann ekki áttað sig á því þegar hún hefði skýrt honum frá sinni hlið síðar. Hann neitaði hins vegar ávallt sök fyrir dómi og bar að hann hefði á fyrri stigum málsins sýnt hennar frásögn skilning í von um að hægt yrði að bjarga sambandi þeirra. Hann neitaði að hafa tekið á sig sök í samskiptum þeirra á milli.

Dómurinn telur þessa misræmi í framburði mannsins veikja trúverðugleika hans. Hins vegar er tilgreint að í fyrstu skýrslutöku hafi maðurinn ekki notið aðstoðar verjanda. Einnig er bent á að að náin samskipti hafi haldið áfram milli mannsins og konunnar í nokkra mánuði eftir að hún hafði kært hann til lögreglu.

Framburður konunnar er talinn skilmerkilegur, utan eins atriðis sem ekki er hafa áhrif á trúverðugleika hennar. Þá er framburður sálfræðings, sem sagði konuna sýna einkenni áfallastreituröskunar, talinn vega þungt.

Það breyti því ekki að konan og maðurinn eru ein til frásagnar um það sem hafi gerst þeirra á milli. Frásögn beggja hafi verið allítarleg þótt áherslumunur hafi verið á. Dómurinn telur því að ekki hafi komið fram lögfull sönnun fyrir ásetningi mannsins en bendir á að í lögunum sé ekki heimild til að refsa fyrir brot af gáleysi.

Einkaréttarkröfu konunnar gegn manninum var vísað frá dómi. Sakarkostnaður upp á rúmar þrjár milljónir króna greiðist úr ríkissjóði.