Skip to main content

Syngur um að hafa flutt í lokaða Reykjavík í miðjum faraldri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2025 14:17Uppfært 07. júl 2025 14:18

María Bóel Guðmundsdóttir úr Neskaupstað fagnar í kvöld útgáfu fyrstu plötu sinnar með tónleikum. Hún segir gleðilegt en um leið ógnvekjandi að sleppa tökunum af tónlistinni sem hún hefur unnið að í nokkurn tíma í eyru hlustenda.


Platan kallast „Svart og hvítt“ og kemur út á miðnætti þar sem María Bóel verður 24 ára á morgun. Hún hefur unnið að plötunni í nokkurn tíma, sent frá sér tvö lög sem hún vann annars vegar með Pálma Ragnari, hins vegar með Hildi Kristínu en á plötunni bætast við tvö lög sem hún vann með Jóni Ólafssyni.

„Tvö nýjustu lögin eru áþekk, heldur minna rafmögnuð en þau fyrri. Platan dregur aðeins nafn sitt af því að hún er tvískipt,“ segir María Bóel.

„Það er ótrúlega gaman að gefa plötuna út en líka ógnvekjandi að kasta út því sem maður hefur unnið að í nokkurn tíma.Vonandi fílar einhver tónlistina – ef ekki þá hef ég að minnsta kosti gert þetta fyrir sjálfa mig,“ segir María Bóel.

Textar frá hjartanu


Hún er alin upp í Neskaupstað en hefur að mestu leyfi búið í Reykjavík undanfarin ár. Textarnir á plötunni fjalla að einhverju leyti um þessar umbreytingar.

„Ég skrifa þá beint frá hjartanu og er nokkuð persónuleg. Ég sem um hvernig er að vaxa úr grasi og átta sig á alvöru lífsins. Eitt lagið er til dæmis um það þegar ég flutti til Reykjavíkur í Covid-faraldrinum þangað sem allt var lokað og læst þannig mér fannst ég ein í heiminum.“

María ýtir plötunni úr vör með tónleikum á skemmtistaðnum Bird í Reykjavík klukkan 20:00í kvöld. Annar Norðfirðingur, Eva Björg Sigurjónsdóttir, ætlar að hita upp fyrir hana.

María segir að viðtökurnar sem platan fær ráði því hvernig hún fylgir henni frekar eftir. „Ég verð á Bræðslunni í sumar. Það er stærsta bókun sem ég hef fengið og þess vegna er ég mjög spennt fyrir að koma fram þar.“