Tækifæri í samstarfi í markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum

Tilkynnt var í síðustu viku um kaup Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufélaginu Ice Fresh Seafood af Samherja fyrir 4,7 milljarða króna. Ice Fresh Seafood hefur selt drjúgan hluta af afurðum samstæðu Síldarvinnslunnar undanfarin ár. Forstjóri fyrirtækisins segir að með þessu gefist betra aðgengi að viðskiptavinum og áhrif á stefnumótunina.

„Við höfum talað um það áður, meðal annars við skráningu Síldarvinnslunnar á hlutabréfamarkað, að það séu tækifæri í samstarfi um markaðssetningu á íslenskum sjávarútvegi. Með þessu erum við orðnir beinir þátttakendur í Ice Fresh Seafood og komum að stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir utan að fá betra aðgengi að viðskiptavinum,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnslan greiðir fyrir kaupin um 1,6 milljarða fyrir núverandi hluti og 3,1 milljarð til útgáfu nýs hlutafjár. Samhliða kaupum Síldarvinnslunnar kaupir Ice Fresh Seafood hlut Samherja í sölufélögum í Bretlandi, Frakklandi, Spáni og Bandaríkjunum og hlut Síldarvinnslunnar í sölufélagi á Spáni.

Þurfa að geta átt við stærri viðskiptavini


Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með 30% eign. Félögin eiga í ýmsu samstarfi og á undanförnum árum hafa 25-30% sölu samstæðu Síldarvinnslunnar farið í gegnum Ice Fresh Seafood.

„Þetta er félag sem selur um allan heim og er með starfsemi í um 60 löndum. Það hefur verið öflugt í bolfiski og einnig selt nokkuð af uppsjávarfiski. Þótt við séum stór í honum á íslenskan mælikvarða þá erum við ekki stór á heimsvísu.

Á öllum mörkuðum er samþjöppun, viðskiptin eru við færri en stærri aðila. Þess vegna eru þessar breytingar nú til góða.“

Breytingar verða í hægum skrefum


Síldarvinnslan styrkti sig í bolfiski með kaupum á Vísi í júlí 2022 og hafði mánuði fyrr keypt þriðjungs hlut í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Vestfjörðum. Aðspurður um hvort kaupin á hlutnum í Ice Fresh Seafood liðki fyrir sölu fiskeldisafurða bendir Gunnþór á að Síldarvinnslan sé þar minnihluta eigandi. „Hins vegar hefur Samherji áform um vöxt í fiskeldi og þar eru tækifæri fyrir Ice Fresh Seafood.“

Um sýnilegar breytingar á Austfjörðum, svo sem hvort ný störf verði til á svæðinu með fjárfestingunni í sölufélaginu, svarar Gunnþór að enn sé of snemmt að segja til um það.

„Kaupin eiga enn eftir að fara fyrir Samkeppniseftirlitið. Síðan setjumst við yfir stefnumótun og framtíðarsýn. Þetta er félag í góðum rekstri sem við höfum unnið náið með í áratugi. Við töldum nauðsynlegt að festa þennan hluta virðiskeðjunnar betur í sessi þannig Síldarvinnslan geti verið beinn þátttakandi í markaðssetningu afurða sinna. Til lengri tíma litið eru ýmis tækifæri en þetta gerist allt í hægum skrefum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.