Tæma innanverðan Reyðarfjörð af laxi vegna blóðþorra
Laxar Fiskeldi hefur virkjað aðgerðaráætlun sína vegna blóðþorra sem fannst við sýnatökur í Reyðarfirði fyrir skömmu og var staðfest í kjölfarið af Tilraunastöðinni að Keldum og erlendum sérfræðingum.
Blóðþorraveiran greindist í laxfiski á svipuðu svæði í nóvember síðastliðnum og var kvíaból við Gripalda tæmt og sett í hvíld í kjölfarið. Síðan þá hefur svæðið verið undir strangri skimunaráætlun og allt reyndist með felldu fram í byrjun þessa mánaðar þegar eitt sýni frá Sigmundarhúsum reyndist sýkt af blóðþorra.
Allt fiskeldissvæði í innanverðum Reyðarfirði verður nú tæmt og eldishvíld tekur við á svæðinu. Matvælastofnun áætlar að með þeirri aðgerð, sem unnin er í samvinnu við Laxa Fiskeldi, verði gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa svæðið til framtíðar.