Tæma þurfti tanka alls 40 bifreiða á Vopnafirði á endanum

Alls hafa eigendur 40 bifreiða á Vopnafirði þurft að leita ásjár hjá bílaverkstæðinu Bílum og vélum þar í bæ vegna mistaka Olíudreifingar þegar dísilolíu var fyrir mistök blandað saman við hefðbundið bensín á afgreiðslustöð N1 á staðnum í lok síðasta mánaðar.

Um 800 lítrar af dísilolíu blönduðust fyrir mistök saman við bensín við áfyllingar á tanka þann 22. nóvember og leið ekki á löngu áður en margir bíleigendur urðu varir við gangtruflanir. Af hálfu N1 var tekin mæling á tönkunum nokkrum dögum síðar og kom þá í ljós að blöndun hafði orðið.

Að sögn Ólafs K. Ármannssonar hjá Bílum og vélum hefur gengið mjög vel að tæma tanka og lagfæra það sem lagfæra þurfti vegna mistakanna en misjafnt er eftir tegundum hversu fljótt það gengur fyrir sig á hverjum og einum bíl.

„Þetta er svona tiltölulega einfalt að tæma úr tönkunum og hreinsa þá en þó í tilfellum þarf að taka upp sæti og fara krókaleiðir að verkinu. Það á kannski sérstaklega við um bíla frá Volvo en heilt yfir tekur svona klukkustund til tvær að afgreiða hvern bíl. Í tveimur tilfellum hefur þurft líka að skipta um smurolíu en ekkert óyfirstíganlegt. Það eru nú einir þrír bílar eftir hjá okkur af þessum 40 og við gerum ráð fyrir að eigendur þeirra geti farið að aka um götur að nýju síðdegis í dag. Þar með er búið að skipta um á öllum þeim bílum sem við vitum af.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.