Skip to main content

Tæpar 118 milljónir austur af landsáætlun um uppbyggingu innviða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2022 13:39Uppfært 31. mar 2022 13:42

Verkefni á Austurlandi fá tæpar 118 milljónir króna af þeim 2,7 milljörðum króna sem ráðherra hefur ákveðið að úthluta á næstu þremur árum samkvæmt Landsáætlun um uppbyggingu innviða.


Úthlutunin dreifist yfir þrjú ár og er misjafnt á hvaða tímabili verkefnin fá sinn styrk. Þannig er stærsta verkefnið eystra í ár þjónustuhús og fræðsluskilti við Helgustaðanámu, sem fá 16 milljónir í sinn hlut.

Önnur verkefni eru hins vegar stærri í heildina yfir þetta þriggja ára tímabil. Stærst er gömul ljósmyndastofa á Teigarhorni sem fær 27,5 milljónir á næsta ári. Þá verður einnig varið fjórum milljónum þar í frágang utanhúss fyrir gesti.

Næst stærsta verkefnið er fyrsti áfangi eldaskála, aðstöðu fyrir útivistarfólk, í Hallormsstaðaskógi á vegum Skógræktarinnar. Það fær 22,6 milljónir árið 2024.

Á Galtastöðum fram stendur til að byggja salernishús, klára móttökuhús og reisa nýjar girðingar. Í það verkefni er veitt alls 21,9 milljónum, nær öllu á næsta ári.

Landsáætlunin er verkefni sem unnið er eftir langtímaáætlun. Stórurð, Gerpissvæðið og Snæfell eru meðal þeirra staða sem koma nýir inn á áætlunina. Gerpissvæðið fær 1,7 milljón og Stórurð 2,4 í ár. Á báðum stöðum verður ráðist í aðkomuskilti og umbætur á gönguleiðum. Tíu milljónir fara í nýja göngubrú við Snæfell í ár.

Að endingu fá þrjú verkefni á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs 11,5 milljónir. Í ár fara 3,5 milljónir í bættar merkingar á Snæfellsöræfum og í Krepputungu en á næsta ári fara annars vegar fimm milljónir í undirbúning vegna nýrrar móttöku í Krepputungu og þrjár milljónir í göngubrú yfir Volgu.

Teigarhorn. Mynd: Andrés Skúlason