Tæpar 70 milljónir austur á land úr Orkusjóði
Sex verkefni á Austurlandi fengu náð fyrir augum stjórnar Orkusjóðs nýverið þegar sjóðurinn úthlutaði styrkjum til handa þeim verkefnum sem „flýta orkuskiptum í landinu með sannreyndri tækni“ eins og það er orðað.
Styrkir Orkusjóðs að þessu sinni til verkefna austanlands námu alls 66 milljónum króna en styrkhlutdeild sjóðsins er aldrei hærri en sem nemur 33 prósentum af kostnaði hvers verkefnis án virðisaukaskatts. Styrkirnir aldrei greiddir út fyrr en við lok verkefna hverju sinni. Heildarupphæðin sem fer til verkefna á Austurlandi er um sjö prósent af þeim 914 milljónum sem úthlutað var að þessu sinni.
Af þeim sex styrkjum sem Austfirðingar njóta góðs af í framtíðinni fóru hæstu styrkirnir til stórfyrirtækja sunnanlands en hinir lægri til smærri aðila sem staðsettir eru í fjórðungnum.
Langhæsta styrkinn nú, 24,6 milljónir króna, fékk Samkaup til að setja upp rafhleðslustöðvar á Djúpavogi og Fáskrúðsfirði. Heimastjórn Djúpavogs hefur staðið í stappi við Samkaup um tíma þar sem fyrirtækið vill ekki kosta að setja upp salernisaðstöðu fyrir gesti við verslun sína á staðnum þrátt fyrir ítrekaðar óskir.
Olíufyrirtækið Orkan fékk úthlutað 16,4 milljónum króna að þessu sinni til uppsetningar á hraðhleðslugámi að Skjöldólfsstöðum í Jökuldal og 9,5 milljónir féllu í hlut Ísorku til uppsetningar á hraðhleðslustöð við Eyvindará.
Þeir þrír austfirsku aðilar sem fengu úthlutað voru Fiskmarkaður Austurlands sem fékk eina milljón til kaupa á rafmagnslyftara, Umhverfisþjónusta Austurlands fékk 12,5 milljónir til kaupa á rafknúnum tætara og 1,8 milljón króna var úthlutað til Móður Jarðar í Vallarnesi vegna virkjunar skóga til ræktunar í gróðurhúsum.
Athygli hefur vakið að allra stærstu styrkir Orkusjóðs þetta árið, vel yfir 300 milljónir króna fóru til Ísfélags Vestmannaeyja, Samherja og eldisfyrirtækisins Arnarlax. Til Ísfélagsins vegna kaupa á rafskautakatli, til Samherja til að breyta einu skipi sínu fyrir kolefnisfrítt ammoníak og til Arnarlax til kaupa á tvinnbát.
Móðir Jörð í Vallarnesi einn þriggja austfirskra aðila sem fengu byr undir vængi með styrk frá Orkusjóði þetta árið. Mynd Visit Egilsstaðir