Tvær milljónir til menningarverkefna í Fjarðabyggð

Stjórn Menningarstofu Fjarðabyggðar hefur samþykkt styrkveitingar til þrettán menningarverkefna á árinu en upphæð styrkjanna í heild að þessu sinni nemur tveimur milljónum króna.

Hæstu styrkirnir að þessu sinni voru annars vegar 300 þúsund króna framlag til Sinfóníuhljómsveitar Austurlands vegna frumflutnings á verkinu forStargazer og hins vegar sama upphæð til sirkuslistafélagsins Hringleiks sem áformar að setja upp götuleikhússýninguna Sæskrímslin. Pönktónlistarhátíðin Austur í rassgati fær 200 þúsund króna styrk að þessu sinni og það fékk líka Guðmundur Kristinn Höskuldsson til tónleikahalds í hinu nýja tónlistarhúsi BRJÁN Tónspil í Neskaupstað.

Aðrir viðburðir sem hlutu náð fyrir augum stjórnar Menningarstofu að þessu sinni af margvíslegum toga. Tveir styrkir til tónleikahalds í Tónlistarmiðstöð Austurlands, uppsetningar á ljósmyndasýningunni Milli fjallanna og sýningarröð ljósmyndarans Apolline Alice Penelope Barra, styrkur til bíósýninga á gömlu efni frá Eskifirði, útgáfu ljóðabókar og hljómplötuútgáfu auk annars.

Sem endranær voru styrkumsóknir mun fleiri og um mun hærri upphæðir en í boði voru að þessu sinni.

Sinfóníuhljómsveit Austurlands mun frumflytja verkið forStargazer eftir Charles Ross í Tónlistarmiðstöð Austurlands síðar á árinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.