Tæplega 100 milljónir í samfélagsstyrki á síðasta ári

SÚN, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, veitti á síðasta ári alls 95,5 milljónir króna í styrki til verkefna í samfélaginu á Norðfirði. Hagnaður af rekstri félagsins í fyrra var 415 milljónir króna.

SÚN styrkti íþróttamál í Fjarðabyggð um 24 milljónir í fyrra. Þá styrkti félagið Neistaflug, glervegg við heitan pott við sundlaugina í Neskaupstað, söfnun Rótarý til að styrkja þau sem urðu fyrir tjóni í snjóflóðunum, Björgunarsveitina Gerpi og 100 ára afmæli Íþróttafélagsins Þróttar.

Þá hefur félagið tekið að sér endurbætur á gervigrasvellinum í Neskaupstað. Þegar þetta allt er talið námu styrkirnir 95,5 milljónum króna.

Frá þessu var greint á aðalfundi félagsins sem fram fór fyrir viku. Félagði stendur vel, hagnaður þess í fyrra nam 415 milljónum króna og eignir þess er rúmar 22 milljarðar. Ein breyting varð á stjórn félagsins, Petra Lind Sigurðardóttir tók sæti Smára Geirssonar.

Á fundinum var farið yfir verkefni sem framundan. Þar ber hæst 750 fermetra viðbyggingu við samvinnuhúsið Múlann sem SÚN á. Þá standa yfir framkvæmdir við gervigrasvöllinn sem á að verða tilbúinn í byrjun júlí.

Á fundinum var meðal annars rætt um húsnæðismöguleika Tryggvasafns en SÚN hefur haft forgöngu að því að koma safninu í nýtt húsnæði. Í tilkynningu er haft eftir Magnúsi Jóhannssyni, stjórnarformanni, að félagar í SÚN líti björtum augum til framtíðarinnar. Það hafi komið að mörgum verkefnum sem bæti samfélagið til framtíðar, til að mynda byggingu 27 nýrra íbúða í samstarfi við Síldarvinnsluna og verktaka.

Ný stjórn SÚN og framkvæmdastjóri, frá vinstri: Petra Lind Sigurðardóttir, Jón Már Jónsson, Magnús Jóhannsson stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins Guðmundur R. Gíslason. Mynd: SÚN


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.