Skip to main content

Tæplega 20 ára uppbyggingarstarf að skila sér í mikilli veiði í Jöklu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. ágú 2025 12:30Uppfært 25. ágú 2025 12:31

Jökulsá á Dal og hliðarár hennar hafa í sumar verið meðal mestu laxveiðiáa landsins. Leigutaki árinnar segir að mikil fjárfesting í uppbyggingarstarfi sé að skila sér. Yfirfall úr Hálslóni síðsumars er þó til vandræða.


Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga frá 13. ágúst, þá einni viku eftir að Hálslón fór á yfirfall, var Jökla í öðru sætinu yfir flesta veidda villta laxa en þá voru 817 fiskar komnir á land í sumar. Síðan hefur hægst á en tölurnar endurspegla þó gott sumar.

„Á tímabili vorum við með flesta laxa á hverja stöng. Við höfum verið með 8-14 stangir og hátt í 200 laxa á viku,“ segir Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengjum, leigutaka árinnar.

Mikil fjárfesting í seiðasleppingum


Eftir tilurð Kárahnjúkavirkjunar og Hálslóns er Jökulsá á Dal tær bergvatnsár meginhluta ársins, þar með talið í júní, júlí og mögulega lengur. Með því var farið að rækta upp fisk í ánni sem virðist skila góðum árangri.

„Þessi veiði nú er því uppbyggingarstarfið síðustu 18 ár er loksins að skila sér. Hún var byggð upp með seiðasleppingum sem fólu í sér fjárfestingu upp á hundruð milljóna króna. Þetta hefur orðið til þess að laxastofn hefur myndast í ánni sem ekki var áður, þótt áfram þurfi að styðja við, aðallega hliðarárnar. Núna er markaðurinn að byrja að taka við sér.“

Í fyrra fór lónið ekki á yfirfall fyrr en í september enda veiddust þá í fyrsta sinn yfir 1000 laxar. Í ár fór lónið á yfirfall um verslunarmannahelgina, sem er í fyrra lagi. „Það er erfitt að byggja upp veiðihús og annað sem nýtist bara í 5-6 vikur,“ segir Þröstur.

Aldrei veiðst lax jafn innarlega


Í ár veiddist lax fyrir ofan Stuðlagil, sem er innar en nokkru sinni hefur áður náðst fiskur. „Okkur hefur oft grunað að laxinn gengi inn fyrir Hákonarstaði og nú er það staðfest. Í sumar veiddist einn fiskur rétt fyrir neðan Stuðlagil og annar fyrir ofan það.“

Þröstur segir að á þessu svæði í ánni séu hindranir sem skoða þurfi hvort hægt sé að hjálpa laxinum yfir. Ábati sé í stærra svæði fyrir fiskinn. „Best væri að fá hann upp allan dalinn. Þannig fengjust ný uppeldissvæði og mögulega fleiri stangir og betri nýting fyrir alla. Hvort það sé hægt verður að koma í ljós.“

Þótt Hálslón sé komið á yfirfall er enn veitt í hliðarám en það gengur hægt. „Það er meira af laxi í þeim en oft áður en þær eru vatnslitlar. Helst er veiði í Kaldá en ástundunin er lítil. Ég er bæði ánægður og svekktur eftir sumarið – það verður aldrei á allt kosið.“

Stoltur veiðimaður með 95 cm langan lax sem veiddist í Jöklu í sumar. Mynd: Veiðiþjónustan Strengir