Skip to main content

Tæplega 80 veiktust eftir þorrablót í Brúarási

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. sep 2025 10:10Uppfært 24. sep 2025 10:11

Tæplega 80 manns tilkynntu veikindi eftir að hafa borðað skemmda rófustöppu á þorrablóti í Brúarási um miðjan febrúar. Ekki tókst að staðfesta að fullu hvar í ferlinu mistök urðu við meðferð stöppunnar.


Þetta kemur fram í lokaskýrslu stýrihóps um hópsýkinguna en skýrslan var gefin út nýverið af sóttvarnalækni hjá embætti landlæknis.

Þar kemur fram að alls hafi 77 einstaklingar tilkynnt veikindi eftir þorrablótið. Flestir glímdu við niðurgang, en einnig var tilkynnt um kviðverki. Fáir lýstu uppköstum, ógleði eða hita.

Einkenni komu fram 6,5-16 tímum eftir borðhaldið, hjá flestum eftir um tíu tíma. Þau gengu almennt yfir á sólarhring.

Tvær bakteríur yfir mörkum


Grunur barst strax að rófustöppunni, sem þótt bæði lykta og smakkast illa, og var það staðfest með sýnatöku. Þar fannst mikið magn af tveimur bakteríum, annars vegar Clostridium perfringens, hins vegar Bacillus cereus. Báðar eru algengar í náttúrunni og matvælum en valda eitrunum þegar þeirra er neytt í miklu magni.

Clostridium-bakterían þolir hefðbundna eldun. Þess vegna skiptir snögg kæling og síðan rétt verklag við upphitun meginmáli til að halda henni í skefjum. Hiti í matvælum þarf að fara niður í 4°C á innan við tveimur tímum, við upphitun þarf hitastig að fara yfir 75°C og haldast yfir 60°C þar til maturinn er borinn fram.

Tókst ekki að staðfesta hvar mistökin urðu


Í skýrslunni er farið yfir verklag, bæði hjá veitingaaðilanum og þorrablótsnefndinni. Þar er aðferðum veitingaaðilans lýst sem og að nefndin hafi fundað um meðferð matvæla fyrir blótið og síðan gætt ýtrasta hreinlætis.

Út frá því hvaða bakteríur er um að ræða þykir ljóst að kæling og upphitun matvæla hafi verið ábótavant. Hins vegar hafi ekkert komið fram í samtölum um nákvæmlega hvað hafi farið úrskeiðis.