Skip to main content

Tæplega 95% ánægðir með lögregluna á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. feb 2022 14:12Uppfært 14. feb 2022 14:14

Yfirgnæfandi meirihluti Austfirðinga er ánægður með störf lögreglunnar í umdæminu samkvæmt könnunum.

Lögreglan á Austurlandi birti nýverið stefnumörkun sína fyrir umdæmið á yfirstandandi ári en þar komu einnig fram bráðabirgðaniðurstöður embættisins vegna ársins 2021 en flestir þættir í starfi lögreglu eru teknir út með einum eða öðrum hætti á ári hverju.

Lögregluyfirvöld settu sér þrjú meginmarkmið um þjónustu í byrjun síðasta árs. Í fyrsta lagi að hlutfall þeirra sem töldu lögreglu skila góðu starfi færi ekki undir 90 prósent. Reyndin er að 94,7 aðspurðra sögðust ánægðir með lögregluna 2021.

Annað markmið var að hlutfall þeirra sem teldu sig mjög eða frekar örugga í umdæminu færi ekki undir 95 prósent og einnig þar fékk lögregla góða einkunn því heil 98 prósent töldu sig vera það.

Í þriðja og síðasta lagi setti lögregla sér markmið um að hlutfall íbúa fjórðungsins sem sæu lögreglumann eða lögreglubíl oftar en einu sinni í viku á sínu svæði færi ekki undir 70 prósent. Það markmið náðist líka því 70,9 prósent sögðu að svo hefði verið.