Skip to main content

Tæplega helmings fækkun gæsahreiðra á Vesturöræfum eftir hretið í fyrra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jún 2025 15:52Uppfært 03. jún 2025 15:58

Veruleg afföll urðu á varpi heiðargæsa og fleiri fugla í hretinu sem gekk yfir Austurland fyrir sléttu ári. Fuglafræðingur vonar að það hret sem nú gengur yfir verði ekki langvinnt en einkum ungum sé hætta búin í kulda og vosbúð.


„Við náðum að telja hreiður á Vesturöræfum áður en gekk í hretið núna. Það er mikil aukning frá árinu 2023. En núna vitum við ekki hvað gerist,“ segir Halldór W. Stefánsson hjá Náttúrustofu Austurlands.

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu stofunnar fækkaði hreiðrum á Vesturöræfum um 47% frá 2023 til 2024 og er sú fækkun rakin til norðanhrets sem líkt og nú gekk yfir Austurland fyrstu vikuna í júní. Afföll voru víðar, svo sem í Húsárdal og Hnefilsdal sem liggja hlið við hlið á Jökuldal. „Það fór allt illa, líka á láglendi hjá grágæsum sem máttu illa við því,“ segir Halldór.

Metfjöldi á fellistöðvunum


Hretið í fyrra virðist hafa orðið til þess að gæsum fjölgaði á fellistöðvum við Eyjabakka, sem eru hinu megin við Snæfell miðað við Vesturöræfin. „Fjöldinn á Eyjabökkum er sá næst mesti sem talinn hefur verið. Við vitum það ekki fyrir víst en okkur grunar að hann megi rekja til hretsins, að fuglarnir sem misstu undan sér hafi ákveðið að fara og fella fjaðrirnar.

Mesti fjöldi sem talinn hefur verið voru 13.000 fuglar. Lengi héldum við að sú talning væri röng en hún var árið 1979 eftir skelfilegt vor.“

Lykilatriði að hretið verði ekki langvinnt


Halldór vonast til að hretið sem nú gengur yfir hafi ekki sömu áhrif en of snemmt er að segja til um það. Margt spilar inn í, svo sem fuglategundir, staðhættir en fyrst og fremst hversu langvinnt og úrkomusamt hretið verður.

„Miðað við þær veðurspár sem við höfum þá stóð hretið um hvítasunnuna í fyrra lengur yfir og því fylgdi meiri snjór. Varpið gæti því sloppið ef óveðri stendur ekki lengur.

Heiðargæsir lifa næstum af að það fenni yfir þær. Það getur komið 10-15 sm djúpur snjór áður en þær færa sig af hreiðrinu – en ef þær gera það þá fer allt í steik.

Almennt er lítið farið að klekjast út. Fólk á ferðinni milli Egilsstaða og Akureyrar hefur séð gæsaunga á ferð á Möðrudalsöræfum. Þeir þola ekki mikið þannig það er líklegt að þeir drepist.

Mó– og vaðfuglar eins og lóan og spóinn láta ekki fenna yfir sig. Þess vegna getur varpið misfarist hjá þeim. Á móti getur verið að þeir verpi aftur en gæsin gerir það ekki. Vaðfuglarnir færa sig niður á láglendið. Fuglarnir sem eru þar fyrir eiga á móti að vera nokkuð öruggir.“

Hretið kemur í kjölfar óvenju hlýs vors þar sem gróður er langt á undan því sem vanalega er. „Birkið og fjalldrapinn voru orðin græn fyrstu vikuna í maí en eru það vanalega ekki fyrr en í lok mánaðarins.“