Skip to main content

Tæpum 65 milljónum úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. des 2023 18:30Uppfært 05. des 2023 18:37

Tæpum 65 milljónum króna var í dag úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til 67 verkefna við athöfn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Hæsti styrkurinn að þessu sinni fer til Sinfóníuhljómsveitar Austurlands.


Hljómsveitin fékk 3,5 milljónir til að frum flytja nýtt tónverk sem Dr. Charles Ross hefur samið fyrir hana í vor. Þá fær sveitin eina milljón til viðbótar í starf sitt. LungA hátíðin á Seyðisfirði fær þrjár milljónir en hún verður næsta sumar helguð hringrás listar og kynslóðaskiptum. Hátíðin fagnar um leið 25 ára afmæli.

Hæsta atvinnuþróunarstyrkinn fá Skógarafurðir í Fljótsdal og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, eða 2,5 milljónir. Skógarafurðir ætla að vinna að markaðssetningu á viðarafurðum sínum sem eru kolefnishlutlausar og sjálfbærar en í Sköpunarmiðstöðinni stendur til að byggja upp þróunareldhús. Sköpunarmiðstöðin fær aðrar tvær milljónir í starfsemi sína.

Alls var sótt um 222 milljónir í sjóðinn að þessu sinni en áætlaður heildarkostnaður verkefna var 640 milljónir. Umsóknirnar voru alls 115 eða 15% fleiri en fyrir ári. Úthlutanirnar skiptast í þrennt: 28,9 milljónir fara til 33 menningarverkefna, fimm milljónir í þrjá stofn- og rekstrarstyrki og 30,95 milljónir í atvinnuþróun og nýsköpun.