Tæpum níu milljónum úthlutað til austfirskra safna
Þrjú söfn á Austurlandi fengu alls tæpum 9 milljónum króna úthlutað úr safnasjóði síðastliðinn þriðjudag. Styrkirnir verða notaðir við miðlun, með sýningum og útgáfu, og skráningu muna.
Hæsta upphæðin rennur til Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði en safnið fékk úthlutað tveimur styrkjum. Annars vegar fær safnið styrk til skráningu muna að upphæð þrjár milljónir króna og hins vegar 2,5 milljóna króna styrk til handritsgerðar og hönnunnar nýrra grunnsýninga í nýju safni. Sem kunnugt er varð mikið tjón á húsum og safnaeign Tækniminjasafnsins í desember 2020 þegar aurskriðan mikla féll á Seyðisfjörð og á fjölda húsa safnsins. Því munar um hverja þá krónu sem fæst til uppbyggingar safnsins á nýjan leik. Á síðasta ári hlaut safnið 8,8 milljóna króna styrk úr sömu úthlutun, meðal annars til forvörslu muna og einnig til hönnunar grunnsýningar.
Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum hlaut styrk að upphæð tvær milljónir króna til uppsetningar á sýningu um Kjarval á Austurlandi. Þá hlaut Minjasafnið á Burstarfelli í Vopnafirði þrjá styrki, alls að upphæð 1,35 milljónir króna, til uppsetningar sýningar um varðveislu menningarerfða á Burstarfellsdaginn, til útgáfu á efni um Oddnýju A. Mathúsalemsdóttur - listræna frumkvöðulinn og uppsetningu á sýningu og fræðslu um íslensku ullina.
Alls úthlutaði menningarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, 107 styrkjum úr aðalúthlutun safnasjóðs fyrir árið 2024, að upphæð ríflega 176 milljónum króna. „Úthlutunin úr safnasjóði endurspeglar þá miklu breidd sem er í safnastarfi hringinn í kringum landið. Söfn gegna mikilvægu hlutverki í menningarlífi þjóðarinnar, bæði að vernda og miðla sögu okkar og menningararfi og kynna hann fyrir erlendum ferðmönnum sem heimsækja landið,“ sagði Lilja við úthlutunina.