Tæpur fjórðungur húsnæðis á Stöðvarfirði stendur autt þrátt fyrir íbúðaskort

Samkvæmt úttekt sem Íbúasamtök Stöðvarfjarðar hafa gert stendur 22 prósent alls húsnæðis í bænum meira eða minna tómt lunga ársins. Það á sama tíma og heimamenn finna fyrir eftirspurn eftir húsnæði í bænum.

Þessi staða er ein af mörgum athugasemdum sem íbúasamtökin hafa komið á framfæri við stjórn sveitarfélagsins Fjarðabyggðar en þar er kallað eftir framtíðarsýn varðandi húsnæðisuppbyggingu á Stöðvarfirði. Ómögulegt sé að styrkja og efla byggðina á Stöðvarfirði þegar áhugasamir koma að lokuðum dyrum með kaup eða leigu á þaki yfir höfuðið.

„Þetta finnst okkur skjóta töluvert skökku við,“ segir Bjarni Stefán Vilhjálmsson, stjórnarmaður í Íbúasamtökunum, og vísar þar til þess að lítið sem ekkert virðist vera að gerast í uppbyggingu á Stöðvarfirði á sama tíma og bærinn sé í sérstöku verkefni sem beinlínis snúist um að styrkja byggðina til langframa. Þar vísar hann í byggðaverkefnið Sterkur Stöðvarfjörður sem er hluti af Brothættar byggðir sem er verkefni á hendi Byggðastofnunar og á að styrkja byggðir sem halloka hafa farið á landsbyggðinni. Verkefnisstjóri þess, Valborg Ösp Árnadóttir Warén, skrifar einnig undir bréfið til Fjarðabyggðar.

„Við fórum um bæinn og töldum það húsnæði sem annaðhvort stendur autt mestan hluta árs eða er eingöngu leigt út gegnum AirBnb eða slík skammtímaleigufyrirtæki. Allt þetta húsnæði er í eigu fólks sem býr annars staðar og eyðir hér takmörkuðum tíma og það er mjög miður því íbúafjölgun er stór þáttur í styrkingu byggðarinnar og hér er ekkert að fá hvort sem þar er um að ræða kaup eða langtímaleigu.“

Óskuðu samtökin sérstaklega eftir svörum frá Fjarðabyggð hvort til greina kæmi að setja beinlínis bann á að leigja íbúðir til skemmri tíma nema viðkomandi ætti beinlínis heimilisfesti á staðnum og byggi þar.

Önnur hugmynd sem samtökin viðra til að bæta stöðuna er að byggðar verði íbúðir fyrir eldri borgara en Bjarni segir að hátt hlutfall íbúa Stöðvarfjarðar séu eldri borgarar sem gætu vel hugsað sér að minnka við sig. Þannig mætti með tiltölulega einföldum hætti skapa svigrúm á fasteignamarkaðnum fyrir fjölskyldufólk og aðra sem áhuga hafa á að setjast að í bænum.

Bjarni segir líka óánægju með að skautað hafi verið fram hjá Stöðvarfirði þegar Fjarðabyggð gerði samninga við leigufélögin Bríet og Brák um uppbyggingu húsnæðis víðast hvar annars staðar í sveitarfélaginu. Það á sama tíma og bærinn sé sá eini í sveitarfélaginu sem flokkast sem brothætt byggð.

„Það var nú gefið í skyn hér í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að uppbygging hér kæmi strax í kjölfar uppbyggingar á Breiðdalsvík. En svo horfum við upp á að flestir aðrir staðir en við fá forgang. Það skýtur nokkuð skökku við að okkar mati.“

Bæjarráð Fjarðabyggðar tók erindi Stöðfirðinga fyrir á fundi sínum á mánudaginn var og erindið sent áfram til fjármálastjóra til umsagnar. Það verður aftur tekið fyrir á næsta fundi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.