Takmarkaðar vonir um makríl í íslenskri lögsögu í sumar

Takmarkaðar vonir virðast á að makríll gangi upp að Íslandi í sumar. Stofninn hefur minnkað á heimsvísu undanfarin ár. Hitastig austan við landið virðist hafa sitt að segja á göngu makrílsins.

Þetta kom fram í erindi sem Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, hélt í dag.

Byrjað var að veiða makríl við Ísland af alvöru sumarið 2008. Næstu ár á eftir var mikið af fiskinum við strendur landsins og jafnvel dæmi um að hann gengi inn í hafnir þar sem hægt var að veiða hann á stöng. Hápunktur veiðinnar var árið 2014 en árið 2020 var makríllinn nær alfarið horfinn úr íslenskri lögsögu.

Aflaverðmæti hans hefur síðustu ár verið um 10 milljarðar króna en íslensk uppsjávarveiðiskip hafa veitt hann áfram í Noregshafi. Íslendingar eru ekki aðilar að alþjóðasamningum um makríl og geta því aðeins veitt á alþjóðlegum hafsvæðum.

Sjórinn við Austfirði hitnar seint


Makríllinn vill helst vera í minnst 8°C heitum sjó en getur þrifist í örlítið kaldari sjó. Hann byrjar að hrygna í febrúar í Biskajaflóa en heldur síðan norður á bóginn. Eftir hrygningu syndir hann úr Írlandshafi norður á bóginn, kemur upp að íslenska landsgrunninu og fer þá ýmist til vesturs eða áfram til norðausturs.

Leitað hefur verið skýringa fyrir veru, eða fjarveru, makrílsins í íslenskri lögsögu í nokkrum þáttum. Eitt af því er hitastigið í sjónum við Austfirði. Þar mætast heitur Atlantsstraumur og kaldur Pólsjór. Mjög breytilegt er hvenær á sumrin sjórinn þar er orðinn nógu heitur til að makrílnum líði vel. Í fyrra var það ekki fyrr en í ágúst, sem kemur heim og saman við að þá veiddist helst makríll á svæðinu. Í gögnunum sést einnig að sumarið 2014 hitnaði snemma við Austfirði meðan sumarið 2020 var kalt.

Í umræðum var bent á að sjórinn fyrir austan land hlýnar tveimur mánuðum síðar heldur en víðast annars hvar á landinu. Anna Heiða sagði að mikill Pólsjór bærist inn á svæðið og magn hans hefði aukist síðustu ár. Sólin hitar hann síðan upp. Anna Heiða benti á að mikill munur væri á lífríkinu í Pólsjónum og Atlantsstraumnum, fyrir utan að svæðið þar sem þeir mættust væri áhugavert.

Engir stórir árgangar í sjónmáli


En stofnstærð og samsetning er það sem virðist hvað mestu skipta um hvort makríllinn sækir upp að Íslandi. Árin 2002-2004 komu upp stórir árgangar sem mynduðu hryggstykkið í þeim sem komu að landinu í byrjun. Árin 2010 og 11 eru þau einu sem vitað er til að makríll hafi hrygnt við landið. Þeir mynduðu lífmassann í öflugum stofnum árin á eftir. Ungmakríll hefur ekki fundist við landið síðustu ár og í vorralli Hafrannsóknastofnunar í ár fannst hreint enginn makríll.

Anna Heiða kom einnig inn á að vísbendingar séu um að makríllinn sé að færa sig norðar, upp að Noregi, til að hrygna. Þar sé hafið að hitna en sé þó enn frekar kalt. Við slíkar aðstæður hefur fullorðni fiskurinn nægt æti meðan lífslíkur afkvæma hans eru minni. Enn er ekki ljóst hvaða áhrif það hefur á göngur fisksins, sem nær alltaf er á flakki, ef hrygningarstöðvarnar færast. Þá eru líkur á að stór stofn leiði af sér grenni fisk sem aftur hafi minna sundþol.

En staðan á heimsvísu er sú að makrílstofninn er að minnka og það virðist eiga hvað stærstan þátt í að Anna Heiða býst ekki við makríl upp að landinu í sumar. „Mér finnst ólíklegt að við sjáum allt í einu makríl meðfram öllum ströndum eins og 2010 út af stofnstærðinni. Við höfum engin merki séð um að hann sé að koma aftur í miklu magni,“ sagði hún.

Af öðrum atriðum sem skoðuð voru má nefna átumagn, sem hefur lítil áhrif á fiskinn, frumframleiðni, sem hefur engin áhrif, fylgni er með framboði næringarefna sem örva þörunga en rannsóknir vantar enn á þeim og ekki vísbendingar um að makríllinn sé að verða undir í samkeppni við aðrar tegundir í hafinu um æti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.