Skip to main content

Tekjur Síldarvinnslunnar tæplega helmingi hærri en á sama tíma í fyrra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2022 10:09Uppfært 31. maí 2022 10:10

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar jukust um 92% milli fyrsta ársfjórðungs 2021 og 2022. Skýringuna er að finna í stórri loðnuvertíð sem gekk þó ekki jafn vel og björtustu vonir stóðu til.


Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungs í síðustu viku.

Rekstrartekjur námu 100,6 milljónum Bandaríkjadollara, eða 12,9 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 52,4 milljónir dollara í fyrra. Hagnaður eftir skatta og afskriftir er 27,5 milljónir dollara eða 3,5 milljarðar íslenskra samanborið við 21,1 milljóna tap í fyrra.

Í yfirliti Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra, segir að stór loðnukvóti síðasta haust eða „loðnusprengjan sem við fengum í fangið“ hafi sprungið í andlitið á útgerðinni. Erfitt veðurfar og sú staðreynd að loðnan kom mjög dreifð upp að landinu hafi flækt veiðarnar þannig ekki tókst að ná öllum kvótanum.

Skip Síldarvinnslunnar veiddu þó yfir 80 þúsund tonn og framleidd voru tæp 51 þúsund tonn af afurðum. Verð á afurðum er mjög gott og fyllt upp fyrir þann kvóta sem ekki náðist. Á það við um meira en bara loðnuafurðirnar, verð á afurðum félagsins eru víða í sögulegu hámarki og eru sjófrystar afurðir sem og mjög og lýsi nefnd.

Íslenskar útgerðir hafa síðustu ár treyst mikið á Úkraínu fyrir uppsjávarafurðir. Í tilkynningunni segir að náðst hafi að spila úr málum þar eftir stríðið og viðskiptum haldið áfram. Náðst hafi lausn um útistandandi kröfur þar.

Órói í heimsmálunum hefur þó áfram áhrif á rekstur Síldarvinnslunnar. Gunnþór nefnir hækkandi vexti, víðar en á Íslandi sem og fleiri kostnaðarliði og þrýsting á íslensku krónuna. Halda þurfi vel á spilum en bjartsýni ríki þó fyrir komandi mánuði.

Eignir Síldarvinnslunnar hækka nokkuð milli ára. Annars vegar eru birgðir eftir vertíðina og kröfur en einnig fastafjármunir vegna nýrrar hrognavinnslu og stækkunar fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað, sem gengur vel.

Eftir loðnuvertíðina tóku við kolmunnaveiðar sem nú er nýlokið. Skip Síldarvinnslunnar eru sum hver farin í slipp sem hluti af undirbúningi fyrir makrílvertíð sem hefst upp úr 20. júní.