Telja breytingar á úthlutun kennslutíma ekki nógu vel útskýrðar

Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar sátu hjá á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku við ákvörðun um breytingar á kennsluúthlutun í grunnskólum. Fulltrúar meirihlutans segja breytingarnar snúa að forgangsröðun í þágu þeirra barna sem þurfa á stuðningi að halda. Fulltrúar minnihlutans telja óljóst hvernig þær eiga að ná tilætluðum árangri.

Til þessa hefur úthlutun á kennslutímum og þar með fjármagni verið verði skipt í þrennt hjá Fjarðabyggð. Í fyrsta lagi almennri grunnúthlutun til að tryggja öllum nemendum almenna kennslu, síðan viðbótarúthlutun vegna skóla sem eru í áhættuhópi og geta þurft viðbótarstuðning og loks svokallaðri dagsúthlutun sem byggist á einstökum nemendum sem þurfa enn meiri stuðning.

Með breytingunum nú er búinn til nýr úthlutunarflokkur, sértæk úthlutun, fyrir stuðning við nemendur sem eru með miklar raskanir eða fatlanir og þurfa þess vegna stuðning til daglegt líf. Það er gert á grundvelli kerfis sem ætlað er að meta stuðningsþörf og kallast SIS. Það er meðal annars notað við að meta þörf á fjárframlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stuðnings við fólk með fötlun. Út frá því kerfi er metið hátt stórt starfshlutfall þurfi til að styðja við viðkomandi einstakling.

Til að mæta þessu á að stækka hámark námshópa á unglingastigi, úr 23 nemendum í 27. Þá er fækkað skiptistundum, tímamagni sem notað er til að skipta bekkjum í minni hópa í til dæmis list- og verkgreinum, hlutfall stuðningsfulltrúa á hvern námshóp í 1. – 6. bekk er minnkað úr 0,5 í 0,3 og reiknistuðlum fyrir sérkennslustundir breytt.

Núverandi skipting flöt


Birgir Jónsson, varaformaður fjölskyldunefndar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði Fjarðabyggð hafa verið eitt af 13 stærstu sveitarfélögum landsins sem árið 2019 fóru í tilraunaverkefni með mennta- og menningarmálaráðuneytinu árið 2019 um að kanna hvernig hægt væri að nýta fjárframlög betur til íhlutunar og forvarna í skólastarfi. Niðurstöðurnar voru birtar í skýrslu sem kom út árið 2021.

Birgir sagði hluta vinnu Fjarðabyggðar þá hafa falist í að greina stöðuna. Út úr því hefði komið að áskoranir væru í ríkjandi úthlutunarreglum sveitarfélagsins. Þær snérust fyrst og fremst um heildarfjölda nemenda í skólum eða nemendahópum en takmarkað um þörf miðað við fjölda nemenda með sérþarfir eða eðli þeirra. „Við þurfum að finna leiðir til að mæta þeim nemendum sem þurfa mestan stuðninginn. Við erum ekki að gera það í núverandi líkani sem er mjög flatt,“ sagði hann.

Skólastjórnendur ákveða útfærsluna í hverjum skóla


Birgir sagðist sem skólastjóri Eskifjarðarskóla á árunum 2017-19 og um leið sem áheyrnarfulltrúi í fræðsluráði hafa reynt að fá umræðu um úthlutunarlíkanið en fengið dræmar undirtektir. Hann fagnaði því að nú væru fleiri farnir að ræða málin. Gagnrýnendur breytinganna hafa meðal annars velt upp áhrifum mögulegrar stækkunar nemendahópa eða annarra forsendna í líkaninu.

Birgir sagði að forsendurnar réðu því hvernig fjármagni væri úthlutað til grunnskólanna. Það væri síðan stjórnenda þar að ákveða endanlega útfærslu. „Úthlutunarlíkönin eru tæki til að skipta fjármunum, við erum ekki að segja að skólarnir eigi að gera þetta eða hitt. Við erum ekki að segja við neinn að hann eigi að vera með 27 nemendur í hópi enda vitum við að hóparnir okkar eru yfirleitt mun minni.“

Hvað er verið að samþykkja?


Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sagðist sammála tilgangi breytinganna og mikilvægt væri að koma fjármunum á rétta staði. Hins vegar vantaði nánari útskýringar á áhrifum breytinganna, til dæmis með samanburði milli ára svo sem hvað stækkun hámarksstærðar námshópa þýði eða breyting á skiptitímunum.

„Við erum sammála um tilganginn en það vantar skýrleikann, hvað nákvæmlega er verið að samþykkja. Hvert fara peningarnir og hvaða áhrif hefur það? Miðað við þá umræðu sem myndast hefur í samfélaginu þá erum við ekki ein um óvissuna,“ sagði hann.

Hissa á hjásetunni


Breytingin var því samþykkt með sjö atkvæðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en fulltrúar Fjarðalistans sátu hjá. Í bókun þeirra segir að stækkun nemendahópa á unglingastigi og breyting á skiptistundum séu varasamar þar sem nemendahóparnir séu mjög fjölbreyttir. Þá hafi íslenska skólasamfélagið bent á að frekar ætti að minnka þá til að koma til móts við þarfir nemenda. Ekki sé hægt að taka afstöðu til breytinganna því ekki liggi fyrir nógu góðar upplýsingar.

Í bókun meirihlutans er ítrekað að skólastjórar hafi áfram rúm til að forgangsraða tímum til kennslu innan sinna skóla eftir þeirra aðstæðum og ekki sé verið að skerða magn kennslutíma. Tilgangurinn sé hins vegar að auka gagnsæi úthlutunar frá sveitarfélaginu til skólanna og bæta þjónustu gagnvart þeim nemendum sem þurfi hana helst.

Þar er lýst furðu á hjásetu Fjarðalistans þar sem fulltrúi hans í fjölskylduráði hafi samþykkt breytingarnar. Þá hafi verið unnið að útfærslunni síðan á síðasta kjörtímabili og rýni á kennslutímaúthlutun verið nefnd sérstaklega í málefnasamningi meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista frá 2022. Þá séu tillögurnar afgreiddar eftir vinnu skólastjórnenda, ráðuneytis menntamála og 13 sveitarfélaga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar