Skip to main content

Telja eðlilegt leiguverð um helming af meðaltali markaðsleigu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. feb 2022 09:41Uppfært 09. feb 2022 09:43

Eðlilegt markaðsverð fyrir þriggja herbergja leiguíbúð á Egilsstöðum ætti að vera um 80 þúsund krónur á mánuði samkvæmt forsendum Samtaka leigjenda en er í raun um tvöfalt hærra.


Samtökin kynntu í gær reiknivél sem sýna á viðmiðunarverð leigu víða um land. Út úr reiknivélinni koma þrjú verð: viðmiðunarverð óhagnaðardrifinna leigufélaga, markaðsleiga og okurmörk.

Ef slegin er inn þriggja herbergja íbúð, 80 fermetrar að stærð, á Egilsstöðum sýnir reiknivélin að óhagnaðardrifin leiga eigi að vera 66 þúsund, markaðsdrifin 81 þúsund og okurleigan 97 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt vefsjá fasteigna hjá Þjóðskrá Íslands er meðalleiga slíkra íbúða rúmar 164 þúsund krónur.

Leiga sambærilegrar íbúðar í Fjarðabyggð ætti að vera 55 þúsund krónur á markaði, okurmörkin eru dregin við 65 þúsund krónur en neðri mörkin við 44 þúsund. Ekki voru nægar upplýsingar til staðar þannig hægt væri að fá samanburð úr reiknivél Þjóðskrár. Ekki er gerður greinarmunur milli byggðarlaga í Fjarðabyggð hjá Samtaka leigjenda.

Í tilkynningu samtakanna segir að reiknivélin sé tilraun til að hefja samræður sem með tímanum komi á siðuðum leigumarkaði hérlendis.

Þar eru útskýrðar forsendur útreikninganna þar sem grunnurinn sé kaupverð íbúða samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár og síðan sé byggt á almennum lánskjörum, kostnaði vegna rekstrar, viðhalds og opinberra gjalda.

Þannig er í okurmörkunum miðað við fjármögnun 70% kaupverðs á 2,5% verðtryggðum vöxtum á 40 ára láni þar með 2% lántökukostnaði. Fasteignagjöld eru reiknuð 0,18%, viðhald 1,1% af kaupverði, umsýslukostnaður 6% og 6% greiðslufallsfærsla af leiguupphæð.