Skip to main content

Telja ekki forsendur til að flytja Hringveginn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. júl 2010 15:44Uppfært 08. jan 2016 19:21

vegaframkv_web.jpgBæjarráð Fljótsdalshéraðs telur ekki forsendur til að flytja þjóðveg eitt frá Breiðdalsheiði og Skriðdal niður á Suðurfjarðaveg og Fagradal eins og bæjarráð Fjarðabyggðar vill. Ráðið telur að ávallt eigi að skilgreina Hringveginn sem stystu leið milli landshluta og hvergi verði gefið eftir á öryggiskröfum.

 

Í ályktun ráðsins segir að stytting vegalengda á Hringveginum ætti að stuðla að lægri flutningskostnaði og minni koltvísýringsmengun farartækja. Ráðið er sammála bæjarráði Fjarðabyggðar um að góður vegur sé um Fagradal og heilsársþjónusta á honum mikilvæg fyrir samgöngur á mið-Austurlandi. Ráðið fagnar því háu þjónustustigi á leiðinni. Það sama eigi við um Fáskrúðsfjarðargöng og klæðningu á Suðurfjarðarvegi sem séu góðar samgöngubætur.

Það eigi samt ekki að koma í veg fyrir að önnur byggðarlög á Austurlandi og almennir ferðamenn geti notið sambærilegra samgöngubóta og styttingu vegalengda.

Ráðið skorar á samgönguyfirvöld að vinna áfram að uppbyggingu á þjóðveginum um Skriðdal og Breiðdalsheiði og vegabótum á veginum yfir Öxi. Aukin umferð á þeim vegi sýni hve mikilvæg sú vegstytting sé vegfarendum.

"Frekari samgöngubætur og aukin þjónusta á þeirri leið er því mikið áhersumál bæjaryfirvalda á Fljótsdalshéraði. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs telur því ekki forsendur til að breyta núverandi skilgreiningu Þjóðvegar 1."