Telja farsælla að styrkja heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. sep 2025 11:15 • Uppfært 15. sep 2025 11:16
Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ) mótmæla boðuðum breytingum á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits í landinu. Þau telja nær að bregðast við ábendingum um úrbætur á núverandi kerfi með því að styrkja það fremur en gjörbylta því.
Jóhann Páll Jóhansson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra og Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, kynntu nýverið tillögur sínar um að færa meginverkefni heilbrigðiseftirlits frá sveitarfélögum til tveggja ríkisstofnana, það er Matvælastofnunar og Umhverfis- og orkustofnunar.
Óvissa fylgir því að gjörbylta opinberu eftirlitskerfi
Fram kemur í bréfi SHÍ, sem Heilbrigðiseftirlit Austurlands er aðili að, að samtökin hafa ítrekað bent á að þær ábendingar eða athugasemdir sem gerðar hafa verið um opinbert eftirlit hér á landi, snúa svo til eingöngu að yfirstjórn málaflokksins og þeirri samræmingu sem yfirstofnunum ríkisins er ætlað að framkvæma. Í erindi ESA er þetta áréttað, að það skorti samræmingu og gagnsæi í opinberu eftirliti á Íslandi.
„Samkvæmt núgildandi lögum eru skýr ákvæði um framkvæmd laga um opinbert eftirlit og því fylgt eftir í reglugerðum. Því miður hafa stjórnvöld ekki sett í forgang að efla og styrkja þá þætti opinbers eftirlits sem hlotið hafa gagnrýni og þannig reynt að leysa vandann.
Í þess stað er meginniðurstaða ráðuneytanna að skynsamlegast sé að færa allt eftirlit yfir til stofnana ríkisins og hverfa frá því kerfi sem er í dag, þvert á það fyrirkomulag sem gildir í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hverfa frá því laga- og regluumhverfi sem er til staðar og leggja upp í þá óvissu að gjörbylta opinberu eftirlitskerfi á Íslandi.“
Sveitarfélög hafa mótmælt
Þá segir í bréfi SHÍ að afstaða sveitarfélaga gagnvart þessum hugmyndum sé skýr og á það bent að mikil andstaða sé hjá sveitarfélögunum við að færa þessi verkefni úr nærsamfélaginu yfir til ríkisstofnana, það eftirlit sem kallar á staðbundna þekkingu verði ábótavant og að eftirlitið verði heilt yfir kostnaðarsamara.
„Sveitarfélögin leggja jafnframt áherslu á að bæta þarf samræmingu og skilvirkni með markvissara samstarfi stofnana, einföldun löggjafar og eflingu starfa á landsbyggðinni.“
Núverandi kerfi tryggir að eftirlitið er nálægt viðskiptavinum
Í bréfinu segir að mikilvægt sé að mati SHÍ að hafa í huga það orðspor og traust sem heilbrigðiseftirlitin á landinu hafa í dag. Enda boða ráðherrarnir í kynningunni að vernda skuli mannauðinn sem í þeim felist.
„Núverandi fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits hefur skilað sér í faglegu og öruggu umhverfi fyrir íbúa, eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum er virkt og er nálægt viðskiptavinum sem hafa þannig greiðan aðgang að aðstoð og leiðbeiningum. Lögð er áhersla á að tryggja matvælaöryggi og að íbúum sé tryggt heilnæmt umhverfi.“
Nær að styðja betur núverandi einingar
Heilbrigðiseftirlitin taka undir að tækifæri eru til úrbóta og betri samræmingar á eftirliti. Slíkum úrbótum verði best náð með því að styðja enn betur við störf heilbrigðieftirlits og með því að styrkja samræmingarhlutverk Umhverfis- og orkustofnunar og Matvælastofnunar, sem skilgreint er í lögum. Það myndi skila sér í sýnilegri samræmingu og tryggja skilvirkari og vandaðri vinnubrögð og þjónustu til þjónustuþega, svo sem með samræmingu á birtingu á niðurstöðu eftirlits.
Mikilvægt er að halda því til haga að heilbrigðiseftirlitin hafa mun víðtækara hlutverk en að sinna leyfisútgáfu og reglubundnu eftirliti með leyfisskyldri starfsemi, svo sem með vöktun umhverfisgæða, kvörtunum vegna umgengni, kvartana vegna hávaða og lyktar auk skipulagsumsagna.
Styrking heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga myndi tryggja enn frekar markmið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um að „búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði, og heilnæmt, ómengað umhverfi“