Skip to main content

Telja rétt að hvíla svæði 2 frá hreindýraveiðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. sep 2022 13:59Uppfært 07. sep 2022 14:32

Hreindýraleiðsögumenn telja koma til greina að hvíla svæði 2, sem löngum hefur verið helsta hreindýraveiðisvæði landsins, frá veiðum í einhver ár í von um að hreindýrastofninn þar byggist upp á ný. Þeir hafa varað við þróuninni þar síðustu ár.


„Við höfum margbeðið um að dregið verði úr veiðum en því takmarkað verið sinnt,“ segir Jón Hávarður Jónsson, formaður Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH).

Austurfrétt greindi frá því á mánudag að veiðar á svæði 2, sem í grófum dráttum er milli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts, að viðbættu svæðinu milli Fljótsdals og Skriðdals, hefðu gengið afskaplega illa í sumar. Þar hefur verið gripið til þess ráðs að leyfa veiðimönnum að skila inn leyfum og fá endurgreitt að fullu eða flytja þau á nærliggjandi svæði.

Jón Hávarður segir þessar aðgerðir hafa verið jákvæðar en þær komi ekki til af góðu. „Það hefur verið súrt gagnvart viðskiptavininum sem kaupir sér leyfi í góðri trú um að dýrin séu til að undir hælinn sé lagt að nokkuð finnist á svæði 2. Það tekur langan tíma að leita að dýrum og álag á landið. Það er heldur ekki mannúðlegt að sækja alltaf í þá fáu hópa sem þó eru á svæðinu.“

Veiðimenn vildu minnka kvótann meira

Hann segir hreindýraleiðsögumenn hafa varað við þróuninni síðustu ár. Í umsögn FLH um tillögur um veiðikvóta yfirstandandi síðasta árs hvetur félagið til þess að veiðin á svæði 2 verði í hæsta 50 kýr og 40 tarfar. Eftir umsögnina var kvótinn minnkaður, þó ekki nema í 100 kýr og 70 tarfa.

„Það er ný staða að svæði 2 sé tómt. Áður var alltaf hægt að ganga þarna að dýrum. Núna eru engin dýr þarna og hafa verið fá síðastliðin tvö sumur. Við teljum að varúðarsjónarmiða hafi ekki verið gætt þannig að dýrin fengju að njóta vafans. Við höfum frekar viljað minnka kvótann ef óvissa væri um stofnstærðina, það er alltaf hægt að stækka hann árið eftir.“

Jón Hávarður segir leiðsögumennina óttast að forsendur í talningu dýranna séu rangar. Það sem flækir talninguna er að dýrin flakka, halda sig út til sjávar eða sunnar á Austurlandi á veturna en færa sig gjarnan norðar og innar í áttina að Snæfelli á sumrin.

„Við fengum fyrst að veita umsögn um kvótann árið 2017. Þá bentum við á að hluti dýranna virtist tvítalinn milli svæða 2 og 7 og það var tekið tillit til þess. Síðasta haust gafst okkur aftur færi á að skila inn greinargerð. Þá bentum við á að okkur virtist ofáætlun í útreikningum vöktunaraðila á vetrarstofnun á svæðum 1, 2, 6, 7 og 8.“

Gera athugasemdir við aðferðafræði talninga

Endanlegur kvóti á öllum þessum svæðum var minnkaður frá veiðitillögunum, þó ekki nærri jafn mikið og leiðsögumennirnir lögðu til. Var þá þegar búið að minnka kvótann verulega frá í því í fyrra. Í skýrslu Náttúrustofu Austurlands, sem sér um vöktun og kvótaráðgjöf, eru bæði FLH og Umhverfisstofnun færðar þakkir fyrir athugasemdir sem byggi á mikilli vinnu. Þær hafi verið ganglegar og hægt að taka tillit til þeirra þar sem stofninn sé hvorki í vexti né nálægt hámarki þéttleika á neinu svæði.

Þar er farið yfir forsendur og aðferðafræði talningarinnar. Tekið er fram að alltaf sé hætta á skekkjum, birtuskilyrði hafi til dæmis áhrif og því sé gengið út frá því að þau dýr sem talin eru séu lágmarksfjöldi. Síðan sé bætt við, að mestu út frá reynslu og tilfinningu. Of- eða vantalning eitt ár geti þýtt skekkju sem ár taki að leiðrétta. Verulega ofáætlaður fjöldi kæmi hins vegar fljótt fram sem veruleg fækkun dýra.

„Við sjáum það í tölum úr talningum að dýrunum á svæðinu hefur fækkað síðustu ár. Undanfarin tvö ár hefur nær ekkert fundist af dýrum á Fljótsdalsheiði eða Vesturöræfum. Í sumar fundust tæplega 350 dýr á öllu svæði tvö. Að okkar viti hefur ekki verið hægt að staðfesta það í flugtalningum að á suðursvæðunum sé sá umframfjöldi sem reiknað sé með. Það er sagt að dýrin gufi ekki bara upp en nú gengur illa að finna þau. Ef það tekst að færa sönnur fyrir þessum tölum þá samþykkjum við það,“ segir Jón Hávarður.

Óttast að endurnýjun sé of hæg

Aldurssamsetning dýranna er eitt af því sem vakið hefur ugg meðal leiðsögumanna. Allra yngstu kýrnar eiga færri kálfa en þær eldri, eru jafnvel geldar. Mörg ung dýr þýða þess vegna að stofninn endurnýjast hægar en ella.

Reynt er að áætla fjölda ungra dýra í lofttalningunum. Í skýrslu Náttúrustofunnar frá í fyrra kemur fram að hlutfall kálfa á svæði 2 hafi verið 51%, jafnvel niður í 44% á ákveðnum svæðum innan þess. „Það eru elstu kýrnar sem eru veiddar sem þýðir að þar sem veiðiálag er mikið bera yngri kýrnar uppi endurnýjunina. Þess vegna verður endurnýjunin hægari en vænst er,“ segir Jón Hávarður.

Rétt að hvíla svæðið

Hann telur líka að of seint hafi verið brugðist við. „Okkur hefur þótt ákveðið viljaleysi til að bregðast við á veiðitíma. Það er gjarnan bent á að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á veiðistjórnuninni en ég tel að vöktunaraðilinn, sem leggur til kvótann, geti ekki fríað sig ábyrgðinni ef lítið finnst af dýrum.“

Jón Hávarður og sérfræðingur frá Umhverfisstofnun funduðu með sveitarstjórn Fljótsdalshrepps í gær um stöðuna. Jón segir leiðsögumenn hafa það miklar áhyggjur að þeir telji rétt að skoða að taka alveg fyrir veiðar á svæði 2.

„Það hafa verið sveiflur á stofninum, kvótinn var aukinn aftur eftir nokkur minni ár og það er spurning hvort of hart hafi verið gengi að stofninum. Við ræddum á þessum fundi að fá því framgegnt að svæðið verði friðað, kannski örfá leyfi, 20-30 á hvort kyn, til að tryggja að farið sé um svæði og fylgst með þróuninni. Við vitum ekki hvað muni gerast en við teljum rétt að hvíla svæðið og sjá til hvað gerist.“