Telja nóróveirusmit hafa borist milli gesta
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2023 09:58 • Uppfært 03. júl 2023 10:15
Talið er að gestir sem komu á austfirskt hótel í síðustu viku hafi borið með sér nóróveiru og smitað aðra gesti þar. Vonast er til að sýkingin sé gengin yfir. Einn einstaklingur lést eftir komuna að austan en dánarorsök fæst ekki staðfest opinberlega.
Morgunblaðið greindi frá því í gærkvöldi að kona á níræðisaldri hefði látist á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) eftir að hafa verið lögð þar inn vegna nóróveirusýkingar.
Ragnheiður Halldórsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra lækninga, segir að sjúkrahúsið geti aðeins staðfest að tveir einstaklingar hafi verið lagðir inn með alvarlegan sjúkdóm, sem nóróveiran sé, en nánari upplýsingar séu ekki veittar um líðan þeirra. Ekki séu gefnar upp dánarorsakir einstaklinga sem þar látist.
Ekki fleiri tilfelli en vanalega
Nóróveiran er skæð magapest sem veldur uppköstum og niðurgangi auk þess sem henni fylgja geta frekari kvillar svo sem hiti og höfuðverkur. Ragnheiður segir sjúklinga reglulega leggjast inn á SAk vegna nóróveirusýkinga.
„Nóróveirufaraldur kemur upp af og til, einkum yfir vetrarmánuðina. Við vorum með fleiri inniliggjandi vegna veirunnar í vetur heldur en núna. Það sem er óvenjulegt er að óvenjumargir virðast hafa veikst á sama stað.“
Ragnheiður segir nóróveirusýkingar geta orðið alvarlegar, einkum hjá ungabörnum, eldra fólki eða einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma. Dauðsföll í kjölfar nóróveirusýkingar séu afar fátíð.
Eftir því sem næst verður komist lagðist sýkingin þyngst á tvo hópa sem dvöldu eystra, annars vegar erlenda ferðamenn, hins vegar konur úr Skagafirði. Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands fengust þær upplýsingar í morgun að þeir þrír einstaklingar sem lagst hefðu inn þar væru útskrifaðir. Í gærkvöldi hafði enginn leitað til Heilbrigðisstofnunar Austurlands vegna sýkingarinnar og verið komnir yfir 36 tímar síðan hótelið hafði spurnir af nýju tilfelli. SAk styður við aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í þessu tilfelli sem fleirum. Þar var ekki virkjað viðbragðsteymi vegna sýkingarinnar.
Vonast til að smitið sé gengið yfir
Fyrstu tilfellin virðast hafa komið upp um miðja síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum á vef embættis landlæknis og Vísindavef Háskóla Íslands er nóróveiran bráðsmitandi og getur auðveldlega borist á milli fólks, bæði við snertingu en einnig með lofti. Tími frá smiti til einkenna er 1-2 sólarhringar. Sjúkdómurinn gengur yfirleitt yfir á 1-3 sólarhringum, án meðferðar. Einstaklingar smita meðan þeir eru veikir en hætta því yfirleit 2-3 sólarhringum eftir að einkennin hverfa.
Erfitt getur verið að komast að uppruna sýkinga en Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, segir þær upplýsingar sem fyrir liggja benda til þess að annar hópurinn hafi komið slappur inn á hótelið og smitað hinn. Hótelið hafi þannig orðið að suðupunkti veikindanna.
Hún segir það hafa gripið til viðeigandi ráðstafana, verið lokað síðustu daga og verið sótthreinsað. Kostur hafi verið að ekki hafi verið uppbókað á hótelinu þegar smitið kom upp. Von er á hópi þangað aftur í kvöld.
Vonast er til að smitið sé gengið yfir þar sem ekki hafi borist tilkynningar ný smit yfir helgina.