Telja ótímabært að samþykkja strax nýtt brúarstæði á Lagarfljóti inn á skipulag

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings felldi nýverið tillögu fulltrúa Miðflokksins um nýja staðsetningu Lagarfljótsbrúar. Bæjarfulltrúi flokksins spyr hver eigi að ráða ferðinni í staðarvalinu, sveitarfélagið með skipulagsvaldið eða Vegagerðin. Fulltrúar meirihlutans segja að bera þurfi saman nokkra kosti áður en veglínur verði settar á skipulag því ónotaðar línur geti valdið vandræðum.

Benedikt Warén, varaáheyrnarfulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og framkvæmdaráði, lagði fram tillögu á fundi ráðsins í byrjun mánaðarins um að strax yrði byrjað í að staðsetja nýja Lagarfljótsbrú eftir tillögu hans og um leið aðlaga þjóðveginn breyttu skipulagi.

Tillagan gerir ráð fyrir að leggja veg frá núverandi þjóðvegi, þar sem göngustígurinn meðfram honum beygir inn í Egilsstaði, og til norðurs þvert yfir Egilsstaðanes að Nátthagavík, skammt utan við Egilsstaðabýlið. Þar er tangi sem teygir sig út í Lagarfljót.

Benedikt segir í greinargerð sinni að frá núverandi brúarstæði og inn að víkinni sé Lagarfljótið grunnt. Með að lengja tangann út í fljótið verði nýja brúin enn styttri. Norðan fljóts kæmi brúin í land rétt innan við sumarhús Skipalækjar. Benedikt telur að með þessu myndi skapast betra svigrúm fyrir íbúabyggð í Fellabæ og betra rými fyrir Egilsstaðaflugvöll.

Lagarfljótsbrú á samgönguáætlun 2034-38


Tillagan var felld með fimm atkvæðum í ráðinu en einn fulltrúi sat hjá. Í staðinn var samþykkt samhljóða tillaga um að óska eftir samtali við Vegagerðina um leiðarval vegna nýrrar brúar um leið og ný samgönguáætlun verður samþykkt.

Þáverandi innviðaráðherra lagði fram drög að samgönguáætlun síðasta sumar og var hún tekin til umræðu á Alþingi í haust. Samkvæmt áætluninni eru framkvæmdir við Lagarfljótsbrú áætlaðar á þriðja tímabili, 2034-38. Þess hefur verið vænst að áætlunin yrði afgreidd sem lög fyrir þinglok en samkvæmt yfirliti á vef Alþingis hefur ekkert til hennar spurst síðan umhverfis- og samgöngunefnd ræddi hana á fundi þann 23. nóvember í fyrra.

Vill hefja skipulagsferlið sem fyrst


Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í síðustu viku sagði Þröstur Jónsson að þarft væri að byrja sem fyrst að vinna í nýrri staðsetningu brúarinnar því ferlið yrði langt. Ganga þyrfti frá skipulagi og semja við landeigendur.

Ljóst væri að núverandi brú væri komin á síðasta snúning því furða væri að hún hengi uppi miðað við hvernig hún gengi eins og sínuskúrfa þegar stór vörubíll með tengivagn færi yfir hana. Núverandi brú væri flöskuháls fyrir atvinnustarfsemi á Austurlandi því á henni eru þungatakmörk. Þess vegna þarf að keyra þyngstu tækin inn í Fljótsdal og fara með þau yfir á ystu brúnni yfir Jökulsá. Hann bætti við að tillaga Benedikts væri til þess fallin að minnka eins og hægt er skaða á ræktarlandi vegna framkvæmdanna, báðu megin fljótsins.

Þröstur lýsti tillögunni, sem ráðið samþykkti, sem loðinni. Að í henni fælist engin ákvörðun. Hann spurði því forseta bæjarstjórnar hvort sveitarfélagið, með sitt skipulagsvald, réði ferðinni eða Vegagerðinni.

Mismunandi veglínur skoðaðar í umhverfismati


Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnaði, kvaðst fagna umræðunni á sama tíma og það væri vonbrigði að vonir um að Lagarfljótsbrúin yrði á öðru tímabili samgönguætlunar væru ekki að ganga eftir.

Hún útskýrði að tímabilið fyrir framkvæmdir væri ætlað í undirbúning, að finna vegstæði og slíkt. Á öðru tímabili væri heimild til hönnunar framkvæma upp á 60 milljónir á ári. Lauslega sé skilgreint hvaða verkefni þar séu undir en brúin eigi að vera þar á meðal. Á meðan áætlunin sé ósamþykkt fáist engin skýr svör frá Vegagerðinni.

Jónína sagðist ekki líta svo á að með ákvörðunum umhverfis- og framkvæmdaráðs væri tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins slegin út af borðinu. Hún yrði tekin með í frekari viðræður við Vegagerðina, enda ekki ólík þeim hugmyndum sem fulltrúar stofnunarinnar hafi þegar kynnt á fundum með Múlaþingi.

Hins vegar megi reikna með því að ný Lagarfljótsbrú þurfi í umhverfismat. Þar verði væntanlega skoðaðar nokkrar mismunandi leiðir. Hún sagðist líta á leiðarvalið sem samstarfsverkefni, ríkið sæi um framkvæmdirnar og umhverfismatið en sveitarfélagið gæti mótað forsendur um hvar hægt sé að hafa veginn.

Á meðan hvorki liggi fyrir ítarlegri upplýsingar né fjármagn sé óskynsamlegt að taka bindandi ákvarðanir, sem mögulega gæti þurft að afturkalla. Þá þurfi ítarlegt samtal að eiga sér stað við íbúa í námunda brúarstæðanna báðu megin.

Ónotaðar veglínur geta verið hamlandi


Ívar Karl Hafliðason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaðst taka undir að núverandi brú væri að mörgu leyti orðin hamlandi fyrir atvinnulíf svæðisins. Hins vegar sé það svo að hæpið sé fyrir sveitarfélagið að taka fullkomlega einhliða ákvörðun um að fara í gegnum einkaland. Þá hafi það sýnt sig áður að ónýttar veglínur á skipulagi sveitarfélaga hafa orðið landeigendum í nágrenninu fjötur um fót.

Eftir að tillagan var felld á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs bókaði Benedikt að það væri undangengnum sveitarstjórnum til háborinnar skammar að hafa ekki fyrir löngu lagt fram endanlega útfærslu á Lagarfljótsbrú og vegum í kringum hana. Enn væri málið tafið og afgreiðslan væri í takt við yfirþyrmandi skammsýni meirihlutans þar sem einskis nýtur braggi fengi meiri athygli en að samgöngur væri íbúum og atvinnulífi til gagns.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.