Telja stefnuleysi í orkumálum bjóða upp á brask af hálfu fjársterkra aðila
Á meðan ekki er til heilstæð stefna hvað varðar orkuframleiðslu og orkunýtingu á Austurlandi og annars staðar í landinu, er hætta á því að fjársterkir aðilar, oft erlendir, spilli náttúru landsins til þess eins og selja orkuna hæstbjóðanda.
Ofangreint er ein þeirra ályktana sem samþykktar voru á aðalfundi Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) sem fram fór í Viðfirði síðla síðasta mánaðar. Þar fjölmargar ályktanir, flestar harðorðar, samþykktar um allt frá líffræðilegri fjölbreytni til sjókvíaeldis og smávirkjana.
Stefnuleysi ár eftir ár
Orkumál voru þó einna veigamest á fundinum sem meðal annars gangrýndi harðlega viðsnúning umhverfisráðherra að færa Hamarsvirkjun úr verndarflokki í biðflokk sem hann gerði nýverið.
Það var stefnuleysi stjórnvalda varðandi framleiðslu og nýtingu rafmagns sem fundarmenn höfðu hvað mestar áhyggjur af enda aðalfundur NAUST bókað um þetta sama stefnuleysi mörg ár í röð. Tilfærsla orkuframleiðslu og -nýtingar til fjársterkra aðila eigi ekkert skylt við orkuskipti heldur ýti beint undir ofneyslu og sóun auðlinda.
„[...] sem hefur komið okkur í þá alvarlegu stöðu sem við erum í dag í umhverfismálum. Þess vegna kallar NAUST 2025 eftir því að heilstæð stefna í orkuframleiðslu, -dreifingu og -nýtingu verði unnin fyrir Austurland og Ísland allt.“
Allar virkjanir skulu í umhverfismat
Fundurinn ítrekaði jafnframt ákall frá aðalfundi sínum fyrir ári síðan að brýnt sé að endurskoða alla áhrifaþætti svokallaðra smávirkjana en undir það falla allar virkjanir sem framleiða minna en 9,9 megavött af orku.
„Umhverfisáhrif virkjana innan þessa stærðarflokks eru afar breytileg eftir staðháttum og því eru megavött ómarktækt viðmið. Samtökin gera kröfu um að allar nýjar virkjanir fari í umhverfismat og inn í rammaáætlun og að undanþágur verði aðeins veittar minniháttar virkjunum til heimilisnota eða smærri atvinnurekstrar til sveita.“
Ályktanir fundarins í heild má skoða hér. Mynd NAUST