Skip to main content

Telja þörf á að endurskoða hafnarreglugerð til að tryggja vernd lundans í Hafnarhólma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. júl 2023 12:29Uppfært 14. júl 2023 13:03

Heimastjórn Borgarfjarðarhrepps telur kominn tíma til að endurskoða hafnarreglugerð Múlaþings, ekki síst til að tryggja vernd lundans í Hafnarhólma samfara aukinni umferð ferðamanna. Byrjað er að taka á móti frjálsum framlögum gesta til að kosta frekari uppbyggingu á svæðinu.


Í bókun frá síðasta fundi nefndarinnar er hvatt til þess að umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefji vinnu við gerð nýrrar reglugerðar fyrir sveitarfélagið allt, eða endurskoði núverandi reglugerð fyrir Borgarfjörð. Mikilvægt sé að fyrir liggi reglur um umgengni við Hafnarhólma og lífríkið þar í kring.

Umferð skemmtiferðaskipa til Borgarfjarðar hefur vaxið síðustu ár auk þess sem þar er núna farið að gera út á skemmtisiglingar með minni bátum.

Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnarinnar, segir að á sama tíma og allir sem séu með ferðaþjónustu sem tengist Hafnarhólmanum sýni lífríkinu þar skilning og tilllitssemi, þá verði að huga að vernd þess til framtíðar.

„Við viljum að þessi mál verði skoðuð til að vernda sérstaklega lundann en líka aðra fluga og dýr, svo sem seli, sem hafast við hér í firðinum. Ef svo ólíklega vildi til að lundinn fældist úr Hafnarhólmanum þá yrði erfitt að búa á Borgarfirði,“ segir hann.

Múlaþing varð til með sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs haustið 2020. Eyþór útskýrir að í dag gildi í raun gömlu reglugerðirnar, en ekki hafi verið búin til samræmd reglugerð enn.

Í dag sé Borgarfjörðurinn allur skipulagt hafnarsvæði en þar er ekki að finna sérstök ákvæði um til dæmis hve hratt megi sigla á svæðinu. Síðan eru landslög um að aðeins meiri sigla á fjögurra sjómílna hraða í innri höfn, þar sem bátarnir eru geymdir. Við þurfum að ræða hvort við viljum breyta okkar reglum eitthvað þannig hlutirnir fari ekki í rugl.“

Gestir viljugir til að styrkja Hafnarhólmann


Þá er nýbúð að setja upp kerfi í Hafnarhólmanum þar sem gestir geta greitt frjáls framlög til að styrkja frekari uppbyggingu svæðisins. „Við fengum fallega hönnuð skilti fyrir okkur þar sem útskýrt er hvernig til stendur að nýta fjármunina,“ segir Eyþór.

Fyrst á verkefnalistanum er að afmarka göngustíg milli Hafnarhússins og Hafnarhólmans sem skilji að umferð ferðafólks og annarrar hafnarstarfsemi. Á honum veðri síðan komið upp fræðsluskiltum. „Við erum nokkuð sátt við hvernig þetta fer af stað. Það er misjafnt hvað fólk greiðir mikið, sumt hefur lagt til dágóðar summur. Við erum enn að þróa tæknina. Vonandi dugir þetta þannig ekki þurfi að krefja fólk um aðgangsgjald. Það kemur í ljós síðar.“