Skip to main content

Telur álögur á sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð aukast um þrjá milljarða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2025 13:01Uppfært 25. apr 2025 13:02

Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað telur að álögur á stóru sjávarútvegsfyrirtækin þrjú í Fjarðabyggð munu aukast um þrjá milljarða króna á ári verði frumvarp um veiðigjöld samþykkt óbreytt. Hann segir enga atvinnugrein þola jafn miklar aukningu á álögum án þess að bregðast við með róttækri hagræðingu.


Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, skrifar undir og var sent til Kauphallarinnar í morgun. Hann segir minnisblaðinu ætlað að koma á framfæri réttum tölum og forsendum þannig hægt sé að taka upplýsta ákvörðun.

Komið er víða við, rætt um samanburð á makrílveiðum Íslendinga og Norðmanna, kjör sjómanna, aðrar álögur á sjávarútveg og þýðingu veiðigjaldanna fyrir Fjarðabyggð.

Hækkun kostnaðar umfram hækkun tekna


Fyrst er farið yfir hvernig álögur og kostnaður sjávarútvegsfyrirtækja hafi aukist síðustu fimm ár, vel umfram tekjuaukningu. Gunnþór segir laun sjómanna hafa hækkað um 61% frá árinu 2019, en rétt er að halda til haga að launin byggja á aflaverðmætum.

Í minnisblaðinu er bent á að rangt sé að halda því fram að útgerðin ákvarði laun sjómanna einhliða, í viðskiptum við eigin vinnslu framhjá markaði, því það sé háð eftirliti verðlagsnefndar skiptaverðs. Þá séu laun uppsjávarsjómanna ein þau hæstu í landinu.

Einnig er tekin fram margföldum veiðigjalda, alls um 160% þar af 456% á uppsjávarfisk sem sé undirstaða Síldarvinnslunnar - áður en boðuð hækkun er tekin með í reikninginn. Kolefnisgjald hafi hækkað um 106% og svo bætist við hækkun orkuverðs, bæði raforku og jarðefnaeldsneytis.

Hver er eðlilegur hagnaður miðað við tekjur?


Gunnþór veltir upp spurningum um hver eðlilegur hagnaður fyrirtækis sé út frá tekjum þess sem andsvari við umræðu um ofurhagnað. Hagnaður Síldarvinnslunnar fyrir skatta í fyrra nam 5,6 milljörðum króna en 10,8 milljörðum fyrir þá. Rekstrartekjurnar voru 41,6 milljarðar. Þetta þýðir framlegð upp á 26% fyrir skatta en 13,5% eftir þá. Rétt er að taka að útreiknar Austurfréttar hér í íslenskum krónum miðast við gengi dagsins í dag en Síldarvinnslan gerir upp í bandarískum dollurum.

Miðað við þær tillögur sem eru um breytingu veiðigjald lækkaði hagnaðurinn niður í 8,8 milljarða fyrir skatta og gjöld en 4,1 milljarð eftir þá. Hlutfallsleg framlægð færi niður í 21% fyrir skatta en 10% eftir þá. Í minnisblaðinu kemur fram að arðsemi eigin fjár fari úr 6,9% í fyrra niður í 5% í ár miðað við tillögurnar og hlutfall hagnaðar af markaðsvirði fari úr 3,4% í 2,5%.

Breytingarnar þýða að hlutfall veiðigjalda af rekstrarafkomu hefðu verið verið 28% í fyrra og yrðu 33% í ár en voru 14% í fyrra. Beinar álögur sem hlutfall af rekstrarafkomu voru 35% í fyrra en hefðu farið í 46% og yrðu 52%. Niðurstaðan sé skattlagning á sjávarútveg sem eigi sér hvergi hliðstæðu.

Síldarvinnslan var skráð á markað árið 2021. Gunnþór segir það hafa verið gott skref. Hann óttist hins vegar að auknar álögur fæli frá fjárfesta og hluthafa, meiri arðsemi verði í því að eiga peninga á bók. Þetta verði til þess að koma í veg fyrir frekari skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á markað.

Ósanngjarn samanburður við Noreg


Tillögur um hækkun veiðigjalds byggja að hluta á fiskverði í Noregi, einkum makríl. Samkvæmt útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins fer veiðigjalds makríls úr 10 kr/kg í 45,6 krónur. Þarna skeikar reyndar útreikningum ráðuneytisins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), tölur SFS eru lægri hvað varðar uppsjávarfisk en hærri í bolfiski. Gunnþór segir þetta dæmi um hversu ógagnsætt ferlið sé því útreikningarnir ættu að skila svipuðum niðurstöðum.

Hvað makrílinn varði sæki Íslendingar hann dreifðan langt í burtu og noti troll við veiðarnar meðan Norðmenn noti nót. Þá sé makríllinn sem Íslendingar veiði oft fullur af átu sem geri hann síður hæfan í manneldisvinnslu og rýrir þar með verðmætið. Norðmenn selji þess vegna mest af sínum fisk til Asíu, sem sé sá markaður sem borgi best, meðan íslenski fiskurinn sé frekar seldur til Austur-Evrópu.

Þess utan sé miðað við útflutningsverðmæti upp á 233 kr/kg af makríl út frá norsku forsendunum en tölur úr bókhaldi Síldarvinnslunnar sýni að það hafi verið 205 kr/kg. Með þessum útreikningum sé litið framhjá verðmætaaukningu sem verði í landi sem þýði að frumvarpið byggi á forsendum sem ekki gangi upp. Það ýti undir aðskilnað útgerðar og vinnslu sem hafi verið undirstaða virðisaukningar og arðsemi íslensk sjávarútvegs.

Framlegð skipa hverfi


Gunnþór tekur líka dæmi um áhrif hækkaðs veiðigjalds á útgerð skipa. Börkur NK, sem kom nýr til Síldarvinnslunnar sumarið 2021, veiddi í fyrra 50 þúsund tonn af afla sem skilaði tveimur milljörðum í aflaverðmæti. Miðað við veiðigjöld ársins 2024 hefði framlegð skipsins verði 522 milljónir eða 25,6% á þessu ári en 372 milljónir eða 18,3% út frá þeim veiðigjöldum sem þegar liggja fyrir. Hækkunin lækki framlegðina niður í 22,5 milljónir eða 1,1%.

Framlegð er reiknuð fyrir afskriftir og fjármagnsliði en skipin eru yfirleitt fjármögnuð með lánum. Hækkun veiðigjaldanna sendi útgerð Barkar í 514 milljóna mínus. Þetta eigi eftir að koma niður á endurnýjun skipa.

Auknar álögur í Fjarðabyggð


Þá eru reiknuð áhrif frumvarpsins á sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð, einkum þær þrjár særstu sem eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, Eskja á Eskifirði og Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði. Rétt er að halda því til haga að samstæða útgerðar telst greiða veiðigjöld þar sem hún á lögheimili, sem til dæmis þýðir að inni í öllum tölum Síldarvinnslunnar eru gjöld sem verða til hjá Vísi í Grindavík og Berg-Huginn í Vestmannaeyjum.

Veiðigjöld fyrirtækjanna þriggja í Fjarðabyggð í fyrra námu 1,8 milljörðum króna og ætti að fara í 2,7 milljarða í ár. Með nýju veiðigjaldi yrði upphæðin um fimm milljarðar króna. Gunnþór bætir við að fyrir hvert eitt tonn af strandveiðiafla sem landað sé í Fjarðabyggð séu 25 tonn tekin af félögum þar.

Ekki aðrir kostir en róttæk hagræðing


Þessu til viðbótar er velt upp stöðunni á heimsmörkuðum, frá áhrifum Úkraínustríðsins yfir í tolla Bandaríkjanna. Samkeppni á erlendum mörkuðum þýði að íslenskur sjávarútvegur geti ekki veitt hærri álögum út í verð.

Gunnþór gagnrýnir að ekki sé búið að greina betur afleiðingar hærri veiðigjalda, hvorki á fyrirtækin né samfélagið. Engin atvinnugrein þoli víðlíkar hækkanir án þess að grípa til róttækrar hagræðingar og skipti þar engu hvort fyrirtæki séu stór eða smá. Það þýði uppsagnir fólks og seinkunn á fjárfestingum.