Skip to main content

Telur brýna þörf á upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. ágú 2023 13:57Uppfært 21. ágú 2023 14:05

Brýnt er að koma mun betur til móts við stóraukinn fjölda ferðafólks á Djúpavogi og ein vænleg leið til þess er að opna litla upplýsingamiðstöð að mati leiðsögumanns á staðnum.

Skipakomum hefur fjölgað duglega á Djúpavogi þetta sumarið og töluvert komið af bókunum skipa þangað næsta sumarið nú þegar. Þegar best lætur og stærstu skipin eru þar í höfn geta um þrjú þúsund farþegar af þeim verið að vappa um þorpið í ofanálag við ferðamenn sem koma landleiðina og skipta tugum eða hundruðum. Þeir margir, sérstaklega skipafarþegarnir, virðast ekki átta sig á hversu lítið þorpið er, hvar eitthvað merkilegt sé að sjá og gera og merkilega mikill fjöldi heldur að það sé minnsta mál að hóa í leigubíl til að flakka aðeins um svæðið.

Hera Líf Liljudóttir hefur þann starfa að leiðsegja ferðafólki og hún vill gera skurk í að bæta þjónustuna á Djúpavogi til muna með mannaðri upplýsingamiðstöð. Hefur hún þegar bryddað upp á hugmyndinni við heimastjórnina á staðum sem tók undir mikilvægi þessa.

„Það eru raddir farnar að heyrast hér sem hafa áhyggjur af miklum fjölda ferðafólks á tilteknum dögum þegar stærstu skipin koma hér við. Margir þeir farþegar koma í land og vita ekkert hvað þeir eiga að gera af sér eða hvað sé markvert að skoða. Þó það séu einhver skilti hérna þá finnst mér þörfin brýn að koma upp upplýsingamiðstöð hér að sumarlagi og leiðbeina þeim er þess óska. Ég veit að það er umtalsvert álag á starfsfólk verslana, veitingastaða og hótelsins frá fólki sem er bara að spyrjast fyrir um eitt og annað en það fólk hefur bara nóg að gera við að sinna sínum viðskiptavinum til að geta orðið mikið að liði. Mönnuð upplýsingamiðstöð myndi að mínu mati hjálpa mikið til.“

Á Djúpavogi var fyrir nokkrum árum síðan rekin slík upplýsingaþjónusta en þá þótti of lítið að gera til að halda henni úti með tilheyrandi kostnaði. Hera Líf segist hafa skilning á því en forsendur nú séu bara allt aðrar en þær voru fyrir tíu árum síðan. Nú getur vart nokkur heimamaður verið útivið án þess að vera truflaður af ferðafólki sem er að spyrja út í hitt og þetta og það eru ekki allir sáttir við það veit ég.“

„Fjöldinn sem hingað kemur er á köflum margfaldur á við það sem var hér áður fyrr og ekki líku saman að jafna. Upplýsingamiðstöð myndi bæði minnka álagið á íbúa hér og bæta þjónustuna við ferðafólkið sem vill sjá, skoða og upplifa. Persónulega finnst mér frábært að hafa svona margt fólk hér að sumarlagi og þetta skapar störf og tekjur fyrir marga en það verður að fara gætilega og taka móti fólki í sátt og samlyndi við alla sem hér búa.“

Þetta sumarið og fram á haustið munu rúmlega 60 skemmtiferðaskip leggja að í Djúpavogi og þau alls með rúmlega 50 þúsund farþega auk 28 þúsund áhafnarmeðlima sem margir hverjir geta einnig farið í land.