Skip to main content

Telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af hreindýrastofninum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2025 16:53Uppfært 15. maí 2025 16:57

Hreindýraveiðikvóti ársins verður 665 dýr. Hann hefur minnkað hratt á síðustu árum, varð mestur um 1.450 dýr árin 2018 og 2019 en 800 dýr í fyrra. Kvótinn helst í hendur við að hreindýrastofninn hafi annað hvort verið ofmetinn eða minnkað. Ekki eru komnar fyllilegar skýringar fyrir fækkuninni en sérfræðingur telur ekki ástæður til að hafa áhyggjur af stofninum.


Hálfdán Helgi Helgason hjá Náttúrustofu Austurlands stýrir talningu á hreindýrum og veiðiráðgjöf. Hann segir engin nákvæm svör fyrir hendi um af hverju dýrunum fækki eða nákvæmlega hvar. Veiðiálag hafi verið hátt en markmið veiðanna sé að halda stofnvexti í jafnvægi á veiði – og ágangssvæðum.

Ýmsar breytur geta síðan haft áhrif á þau líkön sem notuð eru við útreikninga, svo sem breytingar í frjósemi, lifun, aldurs- og kynjasamsetningu. Þá er talningin erfið. Aðstæður geta komið í veg fyrir að hægt sé að telja á ákveðnum svæðum það árið, eða hópur fer á milli svæða og lendir í að verða tvítalinn.

„Við höfum bent á óvissu um stofnstærð og dreifingu í kvótaskýrslum okkar frá árinu 2018. Þar er líka bent á að hreindýr séu að færast út af kjarnasvæði í kringum Snæfell. Með því verður til óvissa um hvað er að gerast þar,“ segir Hálfdán.

„Núna erum við að endurmeta hvernig við högum vöktun til framtíðar. Við þurfum, að minnsta kosti tímabundið, að leggja meiri áherslu á önnur svæði þar sem eru stórir hópar þannig að sýnið verði stærra. Þar erum við aðallega að tala um Hraunasvæðið, Breiðdal og Berufjörð og heiðarnar norðan við Vopnafjörð. Útbreiðslumynstrið hefur breyst töluvert á allra síðustu árum.“

Ekki ljóst hvert Snæfellshjörðin fór


Eins og Hálfdán nefnir hefur dýrum á Fljótsdalsheiði fækkað og veiði þar var hætt árið 2022. Áður hafði heiðin verið einn helsta hreindýrasvæðið. Hálfdán segir ýmsum skýringum hafa verið velt upp en engin verið staðfest.

Til dæmis geti búsvæði hafa rýrnað, svo sem vegna truflunar af einhvers konar umferð, eða þéttleiki dýranna orðið of mikill. Það hafi orðið til þess að mikið hafi verið veitt af eldri kúm sem séu hagavanar. Líklegast sé að samverkandi þættir séu að verki.

Hreindýrastofninn stór í sögulegu samhengi


Hálfdán segir enga ákveðna æskilega stærð á hreindýrastofninum, heldur séu viðmið á þéttleika eftir svæðum. Veiðarnar séu nauðsynlegar til að hafa stjórn á honum. Of mikill þéttleiki dýra geti verið til þess að þau éti upp fæðu sína og stofninn hrynji. Um það séu dæmi erlendis frá.

Með réttri dreifingu er pláss fyrir um níu þúsund dýr en miðað við útgefinn kvóta ætti stofninn að vera orðinn fjögur þúsund dýr eftir burðartímann sem aftur þýðir að vetrarstofninn er um 3.000 dýr. Hálfdán telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af stofninum.

„Þegar hreindýratalningar hófust um 1940 voru talin 100 hreindýr í Kringilsárrana og það var talið vera heildarstofninn, þótt hann hafi sennilega verið um 250 dýr. Síðan fjölgaði þeim hratt. Um 1960 voru þau orðin um 2.000. Þegar þau fóru að færa sig yfir á firðina í miklum mæli um 1975 var sumarstofninn um 4.000 dýr. Þannig var stofninn þar til um árið 2000. Þá hófst fjölgunarskeið sem stóð í um tíu ár. Í stóra samhenginu er stofninn álíka stór núna og hann hefur lengst af verið þau ár sem að við höfum tölur yfir.

Stóra spurningin er hins vegar hvert markmið stofnstýringarinnar á að vera. Hverju viljum við að stofninn skili? Er ákveðinn fjöldi veiðileyfa markmiðið? Þannig er það ekki í dag.“

Þarft að skýra markmið veiðanna


Veiðimenn hafa allra síðustu ár lýst áhyggjum af ofveiði á ákveðnum svæðum. Hálfdán segir að miðað við þau markmið sem ráðgjöfin eigi að ná hafi ekki verið veitt of mikið. Í fyrra þurfti að draga ályktanir út frá stofnmati, sem gerði ráð fyrir 4.100 dýra vetrarstofni. Síðan kom vetrartalning upp á 3.000 dýr. Þess vegna hafi í ár verið ákveðið að láta dýrin njóta vafans og minnka veiðihlutfallið á meðan betri mynd fáist af stofninum.

Hann bætir við að aðeins séu talin þau dýr sem sjáist sem þýði að matið eigi að vera varfærið. Hæpið sé að líffræðingar hafi misst af fjórðungi dýranna.

Hálfdán segir þó vel þess virði að skoða hvernig staðið er að talningu og veiðistjórnun. Kerfið hafi almennt reynst vel þótt á því séu annmarkar. Hann telur til dæmis æskilegt að skýra betur markmið veiðistjórnunarinnar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.