Skip to main content

Telur kvótakerfi grásleppu auka hagræði í veiðunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. apr 2025 15:00Uppfært 15. apr 2025 15:00

Grásleppusjómaður á Vopnafirði segir kvótasetningu grásleppuveiða skila sér í betri vinnubrögðum og meiri skilvirkni. Veiði á vertíðinni hefur verið dræm og verð á mörkuðum lág.


„Við erum búnir að vera að í rúman mánuð en erum ekki komnir með nema um 20 tonn. Veiðin var aðeins að lagast en þá kom bræla. Veðurfarið hefur annars verið snilld. Þetta er fyrsta skotið,“ segir Jón Svansson, útgerðarmaður á Vopnafirði.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi veiðanna en í ár tóku gildi lög um kvótasetningu grásleppu. Áður voru veiðarnar bundnar við ákveðinn dagafjölda eða sóknarmark. Þannig var árið 2022 leyft að veiða í 25 samfellda daga en í fyrra urðu dagarnir 55 eftir að gefnir voru út viðbótardagar.

Kvótasetningin hefur verið umdeild meðal smábátasjómanna. Jón segist í fyrstu hafa verið efins um hana en sé núna kominn á þá stöðum að hún skili skilvirkari og betri veiðum. Hann segir að í sóknarkerfinu hafi hvatinn verið að róa meðan hægt var meðan í kvótakerfinu viti hver hvað hann geti veitt og skipuleggi veiðarnar þannig að þær verði sem hagkvæmastar. „Mér leist ekki á kvótann fyrst en svo skoðaði ég málið betur. Við sjáum núna allt önnur og betri vinnubrögð við veiðarnar.“

Ekki lengur pressa að veiða sem mest á sem stystum tíma


Jón útskýrir að í sóknarmarkinu hafi verið hvati til að leggja út meira af netum, eða öllu heldur lengri net. Það hafi ýmsa ókosti í för með sér. Ekki sé hægt að draga þau öll inn á einum degi sem auki líkurnar á að í þau komi meðafli sem eyðileggist eða þvæli netin. Eins dragi úr freistni til að fara dýpra með netin sem aftur eykur meðaflann.

„Ef grásleppan var dýpra þá lét maður sig hafa það þótt það kæmi meðafli því það varð að nýta dagana. Hér áður fyrr voru menn að setja út 9 km af netum, en breyttar reglur þýddu að meðaltalið var komið niður í 7,5 km í fyrra. Mér sýnist það halda áfram að styttast.

Með styttri netum næst að draga allt á einum degi. Áður fyrr dró maður kannski helminginn, það varð ekki komist yfir meira. Við sjáum minni meðafla, í ár sést varla selur og það sem slæðist með er nýtt.

Kvótinn gerir það að að verkum að menn draga frekar inn netin en láta þau liggja. Svona hefði ekki verið gert í sóknarmarkskerfinu þar sem hver dagur taldi. Þetta dregur bæði úr sókn og veiðarfæranotkun. Sóknarmarkið snýst um að veiða sem mest á sem stystum tíma og það er dýrt. Veiðarnar núna eru hagkvæmari einkum í veiðarfærum. Við erum líka núna þrír bátar á bletti þar sem áður voru 5-8 í einu. En það tengist því líka að verðið er lágt.“

Jón vonast einnig til að auðveldara verði að fá fólk til vinna við veiðarnar þar sem þær séu fyrirsjáanlegir. Hann segist hafa verið heppinn því hann hafi aðgang að sama fólkinu sem rói með honum ár eftir ár en illa gangi að fá nýtt fólk til starfa.

Hæpið að gullaldarverðin komi nokkurn tíma aftur


Jón gerir úr Norðurljós NS og landar á Bakkafirði. Í byrjun vertíðar í mars fóru aflinn á markað og var seldur til Danmerkur, þar sem ágætt verð fékkst. Síðan hrundi það. Núna fer aflinn til Brims á Vopnafirði þar sem grásleppan er skorin, hrognin tekin úr henni og þau söltuð áður en þau eru flutt áfram til frekari vinnslu.

Verðið núna er um 250 krónur á grásleppu. Hrognin eru verðmætasti hluti hennar, Jón segir að í raun sé verið að borga með fiskinum. Hann hefur verið viðloðandi grásleppuveiðar í um 40 ár, þar af í um 20 ár á eigin vegum og hefur séð bæði hæðir og lægðir í verðum og veiðum.

Hann segir að fyrsta breytingin hafi orðið þegar grásleppusjómönnum var gert að koma með grásleppuna í heild sinni að landi í stað þess að hirða bara hrognin. Jón segir að alltaf verði að fara eftir reglum en á móti sé ljóst að þau verð sem fengust á þessum tíma komi ekki aftur.

Hin breytingin sem hann nefnir er þegar kvóti var settur á bolfiskveiðar smábáta. Við það hafi öflugir bátar, sem einhverra hluta vegna áttu ekki bolfiskkvóta, fært sig yfir í grásleppuna. Í einhverjum tilfellum hafi útgerðarmenn þeirra ekki þurft að treysta á grásleppuna heldur farið í veiðarnar því verðin voru góð og tími fyrir hendi.

„Við vorum 4-5 bátar frá Vopnafirði sem rérum norður undir Langanes. Þarna fjölgaði allt í einu bátunum. Bletturinn gaf ekkert meira af sér þannig hver bátur fékk bara minna. Það sem bjargaði okkur voru frjálsar krókaveiðar,“ rifjar hann upp.