Telur tímaspursmál hvenær alvarleg slys verða að Sólvöllum í Breiðdalsvík

Elís Pétur Elísson, framkvæmdastjóri Goðaborgar á Breiðdalsvík, telur brýnt að Fjarðabyggð geri sem fyrst skipulagsbreytingar á lóðum í og við Sólvelli í bænum og óttast að þar verði alvarleg slys fyrr en síðar ef ekkert verður að gert.

Ýmsir vinsælustu ferðamannastaðir Breiðdalsvíkur standa við götuna Sólvelli sem er að mestu leyti aðeins malar- og moldarvegur. Það staðið til í árafjöld að færa þennan kafla til betri vegar, meðal annars með sérstöku torgi, en árin líða án þess að mikið gerist.

Elís Pétur, sem sjálfur situr beggja vegna borðsins sem bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, ítrekaði nýverið beiðni sína um lagfæringar en sveitarfélagið undirbýr nú uppsetningu hreinsivirkis við þessa sömu götu.

Torghugmyndirnar segir hann ekki ganga alveg upp miðað við núverandi starfsemi í kring.

„Það er eitt og annað gott að segja um þessar hugmyndir sem EFLA teiknaði fyrir þetta breiðtorg á Sólvöllunum en þessar hugmyndir eru frá árinu 2016 minnir mig. Síðan þá hefur starfsemin þarna í kring gjörbreyst með þeim hætti að margt það sem teiknað var á sínum tíma samræmist engan veginn núverandi notkun. Nú er þarna auðvitað Frystihúsið, brugghúsið Beljandi og Borkjarnasafnið auk annars sem þýðir að á sumrin er þarna er fólk á ferli allan daginn og langt fram á kvöld. Þarna er engu að síður önnur atvinnustarfsemi eins og verkstæði og fiskvinnsla og töluvert um þungaflutninga. Þó umferðarþunginn sé kannski ekki mikill þarf ekkert mikið að bregða útaf til að slysin verði eins og sýndi sig á Djúpavogi fyrir tveimur árum við svipaðar aðstæður.“

Skipulags- og framkvæmdanefnd Fjarðabyggðar ákvað að vísa erindi Elísar til fjárhagsáætlunargerðar 2025 auk þess að fela skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að útbúa lóð fyrir hreinsivirkið og dælubrunna.

Skjáskot af Google Streetview af Sólvöllunum á Breiðdalsvík. Vegurinn að mestu möl og mold og þarna töluverð umferð þyngri tækja og bíla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.