Telur umhverfi á Austfjörðum ekki henta fiskeldi
Sigfinnur Mikaelsson, sem um árabil fór fyrir fiskeldi í Seyðisfirði, telur náttúrulegar aðstæður á norðanverðum Austfjörðum, með þörungablóma og marglyttum, gera það að verkum að ekki verið hægt að halda þar úti laxeldi til langs tíma.„Það er talað eins og búið sé að finna upp hjólið með nýjum búnaði en búnaðurinn var aldrei málið heldur náttúrulegar aðstæður,“ segir Sigfinnur.
Sigfinnur var meðal frumkvöðla að tilraunum að fiskeldi í Seyðisfirði um tæplega 20 ára skeið, frá lokum níunda áratugarins og fram yfir aldamót, fyrst undir merkjum Strandarlax en síðan Austlax.
„Þegar við byrjuðum fiskeldi hér var ekki hægt að fá lán því það var ekki talið hægt að ala laxinn út af vetrarkuldum. Sumrin og haustin reyndust hins vegar stærstu vandamálin. Vegna þörungablóma á vorin, marglytta á haustin og loks haustblóma þörunga, sem varð til þess að erfitt var að halda fiskinum lifandi á helsta vaxtartímanum."
Fiskurinn drapst á einni nóttu
Í samantekt Hafrannsóknastofnunar um reynslu af fiskeldi við Ísland frá árinu 2008 kemur fram að mikið tjón hafi orðið hjá Strandarlaxi út af þörungablóma árin 1996 og 97. „Vorið 1997 drapst svo til allur stærsti fiskurinn á einni nóttu. Við komum út að morgni og kvíarnar voru lagstar saman því fiskurinn var allur kominn í botninn.
Sjórinn varð þá rauðbrúnn eins og hann varð hér og víðar á Austfjörðum í haust. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist og þetta mun gerast aftur.“
Í samantekt Hafró kemur fram að helst hafi verið talið að þörungablóminn um miðjan tíunda áratuginn stafaði frá næringarefnum frá síldarbræðslunni. Ekki virðist hafa verið skorið úr um ástæður hans endanlega né þess blóma sem varð í haust. Nýjasta tilfellið var helst rakið til sólríkis og hlýs sumars en sambland af því og næringu hvetur þörungana áfram.
„Þörungurinn er staðbundið botndýr sem þarf hita, sól og næringu sem gæti komið frá þorpinu og annarri starfsemi hér, þar með talið bræðslu. Fjörðurinn er það lokaður að straumarnir ná ekki hreinsa hann nógu vel, en samt er ætlunin að setja hér niður tíu þúsund tonna eldi,“ segir Sigfinnur.
Varnirnar duga ekki gegn her af marglyttum
Á Austfjörðum hafa marglyttur líka haft áhrif á fiskeldi. Marglyttan drepur ekki fiskinn en lamar hann svo hann sekkur til botns í kvíunum. Fiskarnir drepast þegar þeir verða undir öðrum sem marglytturnar hafa lamað.
„Það átti að vera varnarbúnaður umhverfis kvíar sem settar voru út í Mjóafirði á sínum tíma. Hann virkar meðan þær koma ein og ein en ekki þegar þær koma í sköflum.
Ég man að ég var eitt sinn á leið út að kvíunum hér í Seyðisfirði þegar ég sá hvíta rönd á firðinum sem ég hélt að væri fitubrák. Þegar ég sigldi inn í brákina voru þetta marglyttur og það drapst á bátnum,“ rifjar hann upp.
Úrgangurinn drepur annað lífríki
Sigfinnur bendir á að þörungarnir og marglytturnar hafi aðallega sést á svæðinu frá Fáskrúðsfirði og norður eftir. Eldið í Berufirði virðist hins vegar hafa sloppið auk þess sem þessi vandamál hafa ekki komið upp á Vestfjörðum. „Það virðist vera eitthvað í umhverfinu hér á norðanverðum Austfjörðum. Að mínu mati er ekki hægt að tala léttvægt um þessa þætti þegar þeir valda 30-40% afföllum. Það virðist skipta mestu máli að fá eldisleyfin og arðinn sem samið hefur verið um ef það tekst, heldur en hvort það sé hægt að reka eldið.“
Sigfinnur, sem í dag hefur skipað sér í lið þeirra sem berjast gegn fyrirætlunum um fiskeldi í opnum sjókvíum í Seyðisfirði, varar líka við áhrifum fiskeldisins á annað lífríki í firðinum. „Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum því lífríki í fjörðunum þar er steindautt. Úrgangurinn af 10.000 tonna eldi hér yrði eins og frá 150-60 þúsund manna borg. Þetta breytir firðinum í fúlapott og þurrkar upp lífríkið.“