Skip to main content

Tengslin við Frakkland setja vigt í bæjarhátíðina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. júl 2025 10:53Uppfært 17. júl 2025 10:53

Bæjarhátíðin Franskir dagar verður formlega sett á Fáskrúðsfirði í kvöld. Stærsta breytingin er að hún er haldin viku fyrr en undanfarin ár. Framkvæmdastjóri hennar segir ánægjulegt hversu mikið Fáskrúðsfirðingar séu tilbúnir að leggja á sig fyrir hátíðina.


Franskir dagar hafa vanalega verið haldnir síðustu helgina í júlí en eru núna viku fyrr á ferðinni. „Við fundum góða stemmingu fyrir hátíðinni en síðan var ekki sá fjöldi í bænum sem við væntum. Sömu helgi var ReyCup fótboltamótið haldið og í dag getur ekkert barn farið á fótboltamót nema 10 manns fylgi því. Fyrir bæjarhátíð munar um hvern tíu manna hóp. Þegar LungA hætti myndaðist pláss í austfirska sumrinu sem við stukkum á,“ segir Daníel.

Hann segir of snemmt að segja til um hvort veðjað hafi verið á réttan hest en frábær þátttaka var í fyrstu viðburðum Franskra daga sem haldnir voru í gærkvöldi, göngu með Göngufélagið Suðurfjarða og barsvari.

Formlega tekið á móti REX


Frönsku dagarnir verða annars settir formlega við upphaf kenderísgöngu í kvöld. Dagskráin í ár er með nokkuð hefðbundnu sniði, annað kvöld er dagskrá við Búðagrund þar sem Eurovision-fararnir í VÆB koma fram og á bæði laugardag og sunnudag er fjölskyldudagskrá. „Það er yfirlýst markmið Franskra daga að barnadagskráin sé ókeypis og það getum við með stuðningi velunnara hátíðarinnar.“

Enn eru að bætast við dagskrárliðir. Á laugardagskvöld klukkan 19:30 verður formlega tekið á móti trébátnum REX, sem árum saman stóð við innkeyrsluna í bæinn. Hann hefur verið fjarverandi síðustu ár vegna viðgerða en er kominn aftur á sinn stað.

Hátíðleiki yfir frönsku viðburðunum


Nafn hátíðarinnar er dregið af tengslum sem mynduðust milli Fáskrúðsfjarðar og Frakklands í þær aldir sem Frakkar stunduðu veiðar við Íslandsstrendur. Í seinni tíð hafa tengslin verið formgerð með vinabæjarsamstarfi við Gravelines og ár hvert kemur sendinefnd þaðan til Fáskrúðsfjarðar til að taka þátt. Á laugardag verður erindi þar sem einn fulltrúi úr frönsku sendinefndinni fjallar um sögu Frakka á Íslandsmiðum á Franska safninu.

„Þótt hátíðin hafi almennt yfir sér léttleika bæjarhátíðar þá skiptir þessi saga bæði Fáskrúðsfirðinga og fólk í norður Frakklandi miklu máli. Viðburðirnir á laugardagsmorgunn eru mjög hátíðlegir og skipta hátíðina miklu máli en þessi menningarhluti hefur ekki alltaf fengið þá athygli sem hann á skilið.“

Að sama skapi halda íbúar Gravelines Íslandshátíð á haustin og þangað fara fulltrúar Fjarðabyggðar. Daníel Geir fór með í fyrra. „Það var magnað að sjá hina hliðina. Þar var maður sem sagði frá þessum siglingum, afi hans var í þeim. Maður fékk oft gæsahúð meðan hátíðinni stóð.“

Fáskrúðsfirðingar duglegir að sinna hátíðinni


Frumsenda þess að hátíðir lifi er að fólk sé til staðar til að halda þær og mæti svo. Daníel Geir segir að á Fáskrúðsfirði sé öflugur kjarni sem haldi hátíðinni uppi. „Það er sterkt í hátíðinni hvað Fáskrúðsfirðingar eru duglegir að taka þátt. Þótt ég sé framkvæmdastjóri þá eiga Fáskrúðsfirðingar þessa hátíð saman og sinna henni. Með mér vinnur frábær nefnd og í hana bættust í ár fjórir einstaklingar sem vildu gera eitthvað.“

Veðurspáin fyrir helgina er góð og Daníel Geir segir að tjaldsvæði séu til taks ef aðaltjaldsvæði Fáskrúðsfjarðar fyllist. „Við höfum fengið fyrirspurnir um tjaldsvæði og okkar svar er að við tökum afar vel á móti öllum þeim sem vilja koma. Sveitarfélagið hefur verið afar duglegt að aðstoða okkur þegar aðsókn hefur verið mikil.“