„Þetta er orðin ein stór fjölskylda sem alltaf er jafn gaman að hitta“

„Undirbúningur gengur vel og fyrsti viðburður Bræðsluvikunnar verður í Fjarðaborg í kvöld þar sem boðið verður upp á Borgfirskan tónlistarbræðing og barsvar. Svo rekur hver viðburðurinn annan fram að tónleikunum sjálfum á laugardagskvöldið,“ segir bræðslustjórinn Áskell Heiðar Ásgeirsson, en dagskrá Bræðsluvikunnar hefst formlega í kvöld.


Eins og „menntaskóla-reunion“
Er þetta fjórtánda árið í röð sem Bræðslan er haldin á Borgarfirði. „Það er allt saman í föstum skorðum, en búið er að reisa sviðið og hljóðkerfið kemur í dag. Ljósamaðurinn kemur í kvöld og hljóðmennirnir annað kvöld. Þetta er svolítið eins og „menntaskóla-reunion“ – þar sem allir koma saman og hittast eftir árs fjarveru, þetta er orðin ein stór fjölskylda sem alltaf er jafn gaman að hitta.“

Nostalgía og nýmeti í bland
Föstudagskvöldið í ár er sérlega veglegt en tvennir tónleikar með Amabadama, Mugison og JóaP & Króla verða í Fjarðaborg og hljómsveitin GÓSS spilar í Álfakaffi. „Fólk getur því valið hvaða stemmningu það vill upplifa, nú eða þá bara fara á báða tónleikana,“ segir Áskell Heiðar.

Það eru svo Atomstation, Between Mountains, Daði Freyr, Stjórnin, Emmsjé Gauti og Agent Fresco sem koma fram á sjálfum Bræðslutónleikunum á laugardagskvöldið sem að venju verður útvarpað á Rás2. Aðspurður hvernig valið á tónlistarfólki hafi farið fram að þessu sinni segir Áskell Heiðar;

„Þetta er nú alltaf bara einhver þróun sem byrjar strax eftir Bræðslu og nokkur mynd er komin á kringum áramót. Við höfum reynt að byggja prógrammið hverju sinni þannig upp að það höfði til sem flestra og eitthvað sé fyrir allan aldur. Úr verður svo einhver kokkteill sem okkur líkar við. Í þetta skiptið bjóðum við upp á bland af nostalgíu, nýmeti, rokki, rappi og hinu og þessu. Búið er að selja flesta þá miða sem við vildum að færu í forsölu og við erum handviss um að það sé frábær hópur eins og ætíð sem er á leiðinn til okkar í ár.“

Veðrið verður varla verra en í fyrra
Veðrið lék Bræðslugesti grátt í fyrra en samanlögð úrkoma á landinu var mest á Borgarfirði yfir helgina. „Það spáir einhverri lítilsháttar úrkomu á laugardaginn, en alls ekkert óveður er í kortunum, bara milt og stillt. Við erum mikið bjartsýnisfólk og viðkvæðið þetta árið hjá okkur er að það geti ekki orðið verra en í fyrra. Annars tökum við því bara sem að höndum ber.“

Ljósmynd: Aðalsteinn Svan Hjelm. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.