„Það eina sem kom út úr ályktunum og fundahöldum voru fimm tímar í stað kortérs“

Sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi eru óánægðir með innheimtu Isavia á gjöldum fyrir bílastæði við flugvöllinn á Egilsstöðum. Einn hvatti til að fulltrúarnir létu fyrir hönd borgaranna reyna á lögmæti gjaldanna meðan aðrir lýstu vonbrigðum með skort á stuðningi frá þingmönnum og ráðherrum.

Isavia Innanlandsflugvellir, dótturfélag Isavia ohf., tilkynnti í janúar um áform sín um gjaldtöku við Egilsstaðaflugvöll og Akureyri. Því var frestað eftir mótmæli en í lok maí tilkynnt á ný um gjaldtökuna. Að þessu sinn hafði Reykjavíkurflugvöllur bæst við og leyfilegur dvalartími á stæði fyrir gjaldtöku verði lengdur úr 15 mínútum í fimm klukkustundir.

„Það er ákaflega sorglegt að tannhjól kerfisins mylji svona mál undir sér. Eina sem við náðum fram með bókunum, kvörtunum og fundahöldum var að lengja tímann úr kortéri í fimm tíma,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á fundi sveitarstjórnar á miðvikudag.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði að í umræðunni hefði verið reynt að koma því á framfæri að Austurlandi sæti engan vegin við sama borð og íbúar Akureyrar eða Reykjavíkur með til dæmis aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þess vegna væri reynt að niðurgreiða ferðir. Hún sagði fimm tíma ekki duga til að fljúga suður, hitta sérfræðing og fara aftur til baka. Ekki hefði fundist vilji hjá Isavia til að rýmka tíma án gjaldskyldu upp í sólarhringa.

Gagnrýna nýjan þjónustusamning


Fyrir fundinum lá álit Jóns Jónssonar, lögmanns þar sem efast er um lögmæti gjaldheimtunnar. Jón hefur áður í greinum lýst efasemdum um lögmæti gjaldtökunnar, einkum á þeim forsendum að ríkið sé eigandi lands og mannvirkja en Isavia aðeins umsjónaraðili. Fyrir viku var undirritaður nýr þjónustusamningur milli innviðaráðuneytis og Isavia, með aðild fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem félaginu var veitt heimild til innheimtu stöðugjalda.

Fulltrúar Isavia funduðu með byggðaráði eftir mótmælin í vetur. Ívar Karl Hafliðason, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði að í fundum vetrarins hefði fulltrúar Isavia sagst vissir um lagaheimildir sínar. Þess vegna hafi komið á óvart að fyrirtækið og ráðuneytin hefðu „hlaupið af stað“ og gert nýjan þjónustusamning í síðustu viku. Berglind Harpa talaði um að þjónustusamningurinn hefði verið „gerðir í leyni.“

Ívar Karl sagði sérstakt að samningarnir væru gerðir á sama tíma og gjaldtökunni hefði verið mótmælt af landshlutasamtökum, sveitarstjórnum og þingmönnum. Sérstakt væri að á sama tíma og þingmenn lýstu andstöðu sinni skrifuðu ráðherrar úr flokkum þeirra undir samninginn. Greina mátti kaldhæðni þegar Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði gott að lagaheimildin væri til staðar þannig hægt væri að „innheimta þennan landsbyggðarskatt svo við getum lagt bílunum okkar á malarstæðinu við Egilsstaðaflugvöll.“

Tekið skal fram að eldri þjónustusamningar við Isavia Innanlandsflugvelli runnu út um síðustu áramót.

Vilja fá innviðaráðherra til fundar


Í ályktun frá fundinum er því lýst furðu á gjaldtökunni og ítrekað að lagaheimild fyrri henni sé ekki til staðar. Þá sé hún ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu og rekstur flugvallanna til lengri tíma. Það er ítrekuð ósk um fund með innviðaráðherra um málið. „Það er óskiljanlegt að þessi áheyrn sé svona langsótt,“ sagði Vilhjálmur Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokks.

Í ályktuninni segir að gjaldtakan hafi í för með sér umtalsverðar álögur fyrir íbúa Austurlands sem þurfi að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið. „Það er af sumu leyti skiljanlegt hún hafi byggst þar upp en þá þarf allt fólk að geta nýtt hana, án þess að það bitni á efnahag þeirra sem síst skyldi,“ sagði Vilhjálmur.

Sveitarstjórnarfulltrúar láti reyna á lögin


Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans, velti upp þeirri spurningu hvort Sjúkratryggingar tækju greiddu stöðugjöldin sem hluta af ferðakostnaði sjúklinga. Hann benti líka á að ríkið hefði hafnað hugmyndum um gjaldheimtu af bílastæðum við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra því ríkið hefði styrkt þá uppbyggingu úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Eyþór hvatti til þess að sveitarstjórnarfulltrúar létu reyna á lögmæti gjaldheimtunnar. „Sem fulltrúar íbúa ættum við að fara og leggja bílunum okkar við flugvöllinn, fá sekt og fara með hana fyrir dómstóla frekar eftirláta borgurunum þar.“ Hann lýsti enn fremur ótta sínum að fólk myndi reyna að leggja á öðrum bílastæðum í nágrenninu eða jafnvel veginum að flugvellinum til að forðast gjöldin.

Isavia hefur einnig varið gjaldtökuna á þeim forsendum að nýta eigi fjármagnið til að lagfæra bílastæðin. Þórlaug Alda Gunnarsdóttir, Miðflokki, spurði hvort tekjur af gjöldunum yrðu raunverulega nýttar til þess. Helgi Hlynur sagðist hafa heyrt að gjaldheimtan væri röng aðferð ef verið væri að bregðast við því að bílum væri lagt við völlinn svo mánuðum skipti. „Hvers konar rugl er þetta? Það er afsláttur ef það er lagt lengi en ættu frekar að vera stighækkandi gjöld.“

Bætist ofan á dýr fargjöld


Bæði Helgi Hlynur og Hildur settu gjaldheimtuna í samhengi við hækkandi flugfargjöld. Austurfrétt greindi frá því að samkvæmt vísitölu innanlandsflugs væri það sögulega dýrt, hefði hækkað um 14% frá apríl fram í maí og um 50% frá því að Loftbrúnni var komið á í september 2015, þegar þau voru sögulega lág.

„Það hefur ekki nokkur orðið var við eftirlit með verðinu. Loftbrúin er 40% niðurgreiðsla en hækkunin er 50%. Við eigum að þrýsta á fund með ráðherra. Það er ljóst að afsláttur Loftbrúar er löngu farinn,“ sagði Hildur. „Sveitarfélög og ríki lofa að hækka gjaldskrár sínar ekki um nema 3,5%. Á sama tíma hækkar innanlandsflugið milli mánaða en millilandaflugið lækkar. Þetta er að verða þreytt, það er eins og það sé sparkað í mann úr öllum áttum,“ sagði Helgi Hlynur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.