Skip to main content

„Það er inni að vera dálítið villtur“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. mar 2022 14:49Uppfært 16. mar 2022 14:56

„Það er víða krafa um það í borgum og bæjum heimsins að gefa villtri náttúrunni aðeins meira vægi þegar kemur að garðyrkju í þéttbýli,“ segir Jón Kristófer Arnarson, nýr garðyrkjustjóri Múlaþings.

Jón tók við sem garðyrkjustjóri sveitarfélagsins um áramótin en hann var áður lengi vel kennari hjá Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands og þar áður starfsmaður Barra á Valgerðarstöðum þegar það fyrirtæki var og hét.

Hann hefur síðustu vikurnar flakkað um svæði og byggðir Múlaþings og kynnt sér bæði stöðu garðyrkjunnar almennt og ekki síður hug íbúa hvers og eins staðar. Upp úr þeim ferðum segir hann standa að flestir hverjir taki vel í að auka frekar gróður í þéttbýli.

„Það hafa allir skoðanir á gróðri og garðyrkju í sínu nærumhverfi og hér austanlands búum við svo vel nánast alls staðar að eiga greitt aðgengi að villtri náttúru en það eru lífsgæði sem ekki allir hafa góðan aðgang að. Heilt yfir var fólk að taka vel í meiri gróður innan bæjarmarka og fleiri en færri voru jákvæðir í garð þess að auka svæði með villtum gróðri eða vinna svæðin í anda náttúrulega gróðurs.“

Jón segir mikilvægt að hlusta á raddir fólks sem býr á hverjum og einum stað því starf garðyrkjustjóra sé að auðvitað ekki annað en að tryggja ánægju og yndi fólks með sitt nærumhverfi.

„Á því leikur lítill vafi að það er inni í dag að vera dálítið villtur ef svo má að orði komast. Krafan um meiri nánd við villta náttúru er stóra verkefni garðyrkjumanna víðast hvar í þéttbýli og til þess eru ýmsar leiðir færar til að sætta sjónarmið allra.“

Mynd: Nýi garðyrkjustjórinn segir marga kalla eftir meiri villtum svæðum í eða við þéttbýli. Mynd Múlaþing