Skip to main content

„Það gæti verið ein lausn að drekka bara bjór og sleppa vatninu í bili“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. okt 2023 11:15Uppfært 05. okt 2023 11:28

Kólígerlamengun sem fannst í neysluvatni á Borgafirði eystri snemma í vikunni hefur ekki haft nein alvarleg áhrif á starfsemina hjá Blábjörgu en þar er sem kunnugt er framleiddir ýmsir drykkir auk almennrar hótel- og veitingaþjónustu.

Samkvæmt mælingum Heilbrigðiseflitits Austurlands fyrir HEF mældist kólígerlamengun enn til staðar í vatni þorpsbúa eftir síðustu mælingar og magnið það mikið að íbúar eru áfram beðnir um að sjóða allt neysluvatn. Frekari sýni hafa verið tekin og send til rannsóknar og vatnsból Borgarfjarðar og nágrenni var skoðað í því skyni að einangri uppruna mengunarinnar. Ljóst liggur fyrir að slík mengun kemur aðeins til af saur frá dýrum eða mönnum.

Að sögn eigenda Blábjargar, hjónanna Auðar Völu Gunnarsdóttur og Helga Sigurðssonar, er vatnsmengunin ekki ýkja mikið vandamál. Við bruggun á bjórum og sterkari drykkjum er allt ferlið þannig að mengað vatn kemst þar ekki að og sömuleiðis hafa ekki orðið nein stór vandamál á hótelinu sjálfu vegna þessa.

„Við reddum okkur alveg þó vissulega sé bagalegt að þetta hafi gerst hér. En það gæti verið ein lausn að drekka bara bjór frá okkur og sleppa vatninu í bili,“ gantast Helgi með í spjalli við Austurfrétt.

Starfsfólk frá bæði Múlaþingi og HEF mun í dag vinna áfram við að reyna að fyrirbyggja mengun og sýni sem tekin voru í gær gefa væntanlega skýrari mynd af því hvar mengunin hefur átt sér stað í kerfinu.