Það þarf að verða aftur töff að lesa

Kristján Ketill Stefánsson, lektor í kennslufræðum við Háskóla Íslands, telur að samstillt átak þurfi að bregðast við dalandi lesskilningi. Samfélagsbreytingar séu ástæður slakrar útkomu íslenskra nemenda í PISA-könnunum.

„Ég bjóst við slakri útkomu en ég átti þó kannski ekki von á að hún yrði alveg jafn slök og raun bar vitni. Niðurstaðan var í takt við það sem við höfum verið að sjá í niðurstöðum Skólapúlsins. Ánægja af lestri hefur verið á niðurleið og þess vegna kemur ekki á óvart að lesskilningur hafi einnig verið á niðurleið.

PISA er fyrst og fremst próf í lesskilningi, það má ekki gleyma því. Niðurstaðan er áhyggjuefni vegna þess að hún gefur vísbendingar um að lesskilningur sé á niðurleið og lesskilningur er grundvöllur alls náms,“ segir Kristján en bætir við að ekki megi mála skrattann algjörlega á vegginn. Íslenskir nemendur komi þokkalega út í samanburði við önnur lönd þegar líðan þeirra sé mæld og það sé auðvitað mikilvægt.

Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í desember í fyrra. Samkvæmt þeim búa 40% 15 ára nemenda hérlendis ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Það er langt undir því sem gerist á hinum Norðurlöndunum eða í ríkjum OECD, þar sem könnunin er gerð.

Enn bara 24 tímar í sólarhringnum


Kristján Ketill segir ástæðurnar miklar samfélagsbreytingar sem bæði börn og unglingar séu nú að fóta sig í. „Við þekkjum það kannski frá því þegar við vorum ung að þáað var ekki sama frístundaframboð í boði. Nú er afskaplega lítill hluti af degi barna óskipulagður. Það er ekki mikið verið að lesa í frístundum barna og það er ekki endilega þannig að það skipulega frístundastarf sem er í boði feli í sér mikil samskipti við fullorðna. Það er ekki mikið verið að æfa nýjan orðaforða eða verið að lesa í fimleikum eða í fótbolta. Þessi mikla dagskrá kemur í staðinn fyrir það sem var áður þegar börn komu heim úr skólanum, höfðu ekkert að gera og lásu Andrés Önd.“

Streymisveitur, leikjatölur og snjallsímar voru ekki til fyrir fáum áratugum. En eitt hefur ekki breyst. „Sólarhringurinn er enn bara 24 tímar, bæði fyrir börn og fullorðna. Svo mér finnst líklegt að þessar niðurstöður sem við erum að sjá varðandi lesskilninginn tengist því að bæði börn og fullorðnir lesi minna.“

Kristján Ketill er uppalinn í Jökulsárhlíð og flutti aftur austur á Hérað árið 2018 eftir að hafa lokið doktorsprófi í menntunarfræði. Hann hafði þá stofnað menntarannsóknafyrirtækið Skólapúlsinn og tók aðalskrifstofu þess með sér austur. Eftir að Kristján Ketill fékk lektorstöðuna tók eiginkona hans, Kristín Una Friðjónsdóttir, við því en þau vinna bæði að austan.

Snýst um að geta haft gagn af texta


Skólapúlsinn gerir ýmsar athuganir á líðan og framgangi í skólum. Hann segir niðurstöðurnar í rannsóknum Skólapúlsins síðustu ár hafa bent í sömu átt og í PISA-könnuninni. „Þróunin er sláandi, 60 prósent 10. bekkinga á Íslandi lesa í skólanum en aldrei sér til gamans, aldrei vegna þess að þau langar það, aldrei til að drepa tímann. Af hverju er þetta? Jú, af því að það er svo mikið annað „skemmtilegra“ að gera en að lesa.“

En hvað hefur þessi þróun í för með sér. „Ef þú lest því sem næst aldrei og talar heldur ekki um það sem þú þó lest þá byggir þú ekki upp orðaforða og ekki lesskilning. Af þeim sökum færðu lélega útkomu á PISA-prófinu.Pisa prófið mælir, lesskilning. Hvernig þér gengur þér að draga upplýsingar út úr flóknum texta og beita honum í einhverju skyni.“

Kristján Ketill segir skort á bókum ekki útskýringu, mikið sé gefið út af góðum bókum á íslensku. Þær séu hins vegar ekki jafn sýnilegar á heimilunum og áður. „Rannsóknir sýna að heimili þar sem mikið er til af bókum, hreinlega mælt í hillumetrum, á þeim heimilum hafa börn betri lesskilning og sýna betri námsárangur. Heimilið er því mjög stór breyta, en skólarnir sannarlega líka.

Mér finnst vandamálið vera að við þurfum að breyta umhverfinu þannig, bæði á heimilunum og í skólunum, svo það verði aftur áhugavert að lesa. Það þarf að verða töff að lesa. Eins og er þá ertu í minnihluta barna í 10. bekk ef þú tekur upp bók og lest þér til gamans. Og þegar þú ert unglingur þá þráir þú að vera eins og allir hinir, passa í sama kassann og allir hinir og standa ekki út úr. Og nú er það orðinn meginstraumurinn að lesa einungis þegar maður þarf að gera það.“

Ólíkar væntingar


Árangur nemenda af landsbyggðinni er lakari en nemenda af höfuðborgarsvæðinu í PISA-könnuninni. Kristján segir það að einhverju leyti skýrast af væntingum og hvatningu úr umhverfi barnanna.

„Nýlegar rannsóknir sýna að hlutfall foreldra sem telja að barnið sitt muni ljúka háskólanámi er mun lægra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það eru líka færri háskólamenntaðir foreldrar á landsbyggðinni svo bæði fyrirmyndirnar og væntingarnar eru minni,“ segir Kristján og bætir við að útkoma landsbyggðarinnar gæti verið enn lakari væru skólar á Akureyri ekki inni í tölunni.

„Væntingar foreldra til bóknáms eru lægri á landsbyggðinni. Minni væntingar til bóknáms tengjast jafnframt aðgengi að framhaldsmenntun á landsbyggðinni, sem er alls ekki nógu gott,“ segir Kristján.

Skólarnir geta gert betur


Sérsvið Kristjáns snýr að kennslufræði og hafa rannsóknir hans einkum snúist um hvað hægt sé að gera í kennslu til að bæta námsárangur og meðal annars áhuga á lestri í skólastofunum. Þar hefur hann meðal annars fjallað um svokallaða áhugahvöt sem byggist upp einkum af þrennu: Því að nemendur hafi val, til að mynda um hvaða bækur þeir lesi; að nemendur upplifi hlýtt viðmót og tengsl og því, sem hvað mikilvægast er, að nemendur upplifi leikni í því sem þau gera í náminu. Til þess að það geti orðið, segir Kristján, er algjört lykilatriði að tryggt sé að nemendur nái tökum á lestri og það snemma.

„Ef þú færð ekki viðeigandi lestrarkennslu í upphafi, og hún er mjög mismunandi eftir skólum og hana má bæta mjög víða, þá nærðu aldrei árangri og upplifir aldrei færni. Sum staðar er ekki nógu skipulega verið að grípa börn sem ekki kunna hljóð bókstafanna og hvernig á að tengja hljóð þeirra saman í orð. Þau eru jafnvel ekki gripin fyrr en í 4. bekk. Það er alltof seint! Þetta ætti að gerast skipulega strax við lok leikskóla. Ég tek fram að víða er þetta mjög vel gert en það mætti, og ætti, að gera þetta á skipulegri hátt í öllu skólakerfinu, að grípa nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika.“

Þeir nemendur sem ekki læra grunnundirstöðurnar í lestri upplifa aldrei þessa mikilvægu leikni, sem aftur hefur þær afleiðingar að börnin fara að lesa minna og dragast aftur úr, segir Kristján. „Ef þú lest mjög hægt, það er mikið ströggl og þú nærð aldrei leikni þá færðu heldur ekki áhuga á að lesa meira, og þá er tölvan eða Netflix eða Roblox bara miklu skemmtilegra. Þar upplifir þú leiknina.“

Lesskilningur lykilatriði í öllu námi


En snýst allt nám þá um lestur? Já, lesturinn skiptir mjög miklu máli segir Kristján. „Lesturinn er mjög mikilvægur öllu námi, hvort sem það er stærðfræði, íslenska eða náttúrufræði, eða hvað sem er. Lestur og lesskilningur eru algjört lykilatriði.“

Kristján segist ekki vilja gera einhvern einn að blóraböggli, um sé að ræða samfélagslegt verkefni. Niðurstaða PISA-könnunarinnar sé áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag sem allir ættu að taka alvarlega. „Orðaforði og hugsun eru svo nátengd. Ef þú ert með takmarkaðan orðaforða takmarkast möguleikar þínir á að hugsa. Þú getur ekki glímt við jafn flóknar spurningar, þú getur ekki dregið flóknar ályktanir og komist að skynsamlegri niðurstöðu. Þess vegna held ég að það sé líka stórt lýðræðisspursmál, að við náum að snúa þessari óheillaþróun við.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.