Skip to main content

„Það vantar ekki hugmyndir”

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jan 2024 11:53Uppfært 19. jan 2024 11:53

Austfirsk ferðaþjónustufyrirtæki kynntu á dögunum nýjungar í afþreyingu og gistingu á Ferðaþjónustuvikunni sem haldin var í Reykjavík. Kynningarnar voru lokahnykkur á vöruþróunarverkefninu Straumhvörfum sem staðið hefur frá síðasta hausti.

Á vef Austurbrúar er sagt frá kynningunum en það voru fyrirtækin Blábjörg á Borgarfirði eystra, Tanni travel, Eskifirði, East Fjord Adventures/Tækniminjasafnið á Seyðisfirði, Ferðaþjónustan Mjóafirði og Adventura á Djúpavogi sem að þeim stóðu. Þar kynntu fyrirtækin gönguferðir, gistingu og samsettar ferðir fyrir fulltrúum ferðaskrifstofa, ferðaheildsala og flugfélaga, í aðdraganda stærstu ferðakaupstefnu landsins, Mannamóta.
Straumhvarfaverkefninu er ætlað að þróa framboð í ferðaþjónustu og nýta tækifæri sem felast í millilandaflugi til Austur- og Norðurlands.

„Það vantar ekki hugmyndir en oft vantar stundina og staðinn til að þær verði að einhverju meiru. Með Straumhvörfum erum við að koma hugmynd á blað, í samstarf og til kynningar. Það er spennandi tækifæri,” er haft eftir Díönu Mjöll Sveinsdóttur, framkvæmdastjóri Tanna Travel, á vef Austurbrúar.