Þak fauk af fjárhúsi í Fljótsdal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. feb 2022 15:16 • Uppfært 22. feb 2022 15:18
Þak fauk af gömlu fjárhúsi við bæinn Glúmsstaði 1 í Fljótsdal í óveðri þar í nótt. Járnplötur fuku um 600 metra leið.
„Þökin voru eitthvað að færa sig til hér í gærkvöldi. Það fauk eitt slíkt af tómu fjárhúsi. Það var myrkur þegar ég fór að heiman í vinnuna í morgun þannig ég veit ekki enn hvert það fór.
Ég heyrði bara járnaglamur þegar ég kom út úr íbúðarhúsinu og sá það voru bara 2-3 plötur eftir af þakinu á fjárhúsinu,“ segir Jón Þór Þorvarðarson, sem býr á bænum. Fjárhúsið var tómt en nokkur ár eru síðan Jón Þór hætti sauðfjárrækt.
Eftir að birta tók kom í ljós að járnplöturnar höfðu dreifst um töluvert svæði. Járn fannst í að minnsta kosti 600 metra fjarlægð frá bænum.
Jón Þór kveðst ekki viss um hvenær þakið hafi farið því hann hafi einskis orðið var, hvorki í gærkvöldi né nótt. Talsverður vindur hafi þó verið á svæðinu. „Vindurinn snéri sér milli klukkan níu og tíu í gærkvöldi. Þá komu dálitlir hvellir. Mér finnst líklegast að það hafi farið þá í einu lagi.“