Þarf líka að huga að dýrum á snjóflóðahættusvæðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. sep 2023 17:05 • Uppfært 27. sep 2023 17:05
Takmarkað yfirlit er til um gripahús á svæðum sem eru í hættu vegna náttúruvár, svo sem snjóflóða. Ekki var hægt að komast til hesta í Norðfirði þegar snjóflóð féllu þar í lok mars.
„Þessi staða vakti fólk til umhugsunar. Þetta er alls ekki eina svæðið þar sem þetta getur komið upp,“ segir Anna Berg Samúelsdóttir. Hún situr í stjórn Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) og er fulltrúi þess í fagráði um velferð dýra. Anna Berg vakti athygli á málinu á fundi stjórnar DÍS eftir snjóflóðin og fylgdi því síðan eftir innan fagráðsins.
Fyrstu snjóflóðin féllu á Norðfirði að morgni mánudagsins 27. mars. Í tvo sólarhringa var ekki hægt að huga að 14 hestum í húsum innan við byggðina því ekki mátti fara þangað vegna snjóflóðahættu.
„Mannfólki var komið í var en dýrin eru í læstu húsnæði. Þau geta ekki gert vart við sig eða brotist út,“ segir Anna Berg.
„Við höfum verið kærulaus gagnvart þessari stöðu. Á nokkrum svæðum á landinu eru gripahús á skilgreindum hættusvæðum. Að eiga dýr eru forréttindi en ekki mannréttindi og þess vegna að mati okkar í stjórn DÍS þarf að sjá til þess að þau séu í öruggu skjóli,“ bætir hún við.
Þessi mál eru þó ekki ný í umræðunni. „Nærtækasta dæmið er frá árinu 2018 þegar Fjarðabyggð keypti upp hesthús Eskfirðinga því þau voru á skilgreindu hættusvæði.“
Í bókun frá fundi fagráðsins er því beint til sveitarfélaga að huga að því við skipulagsgerð að gripahús séu ekki á þekktum hættusvæðum. Þar er óskað eftir samstarfi við aðila á borð við almannavarnir og sveitarfélögin um að huga að þessum málum því eins og Anna Berg bendir á þá er dýrunum hætta búin af fleiru en snjóflóðum.
„Þetta tengist líka viðbragðsáætlunum gagnvart eldgosum, jarðskjálftum og fleiru. DÍS óskar eftir að líka séu gerðar viðbragðsáætlanir fyrir skepnur og þeir sem stýra aðgerðum þekki þær. Það vantar til dæmis yfirsýn yfir þann fjölda dýra sem geta verið á ákveðnu svæði þegar náttúruhamfarir eiga sér stað.“