Skip to main content

Þarft að skoða skipulag á Djúpavogi í ljósi aukningar ferðafólks

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2023 17:27Uppfært 05. jún 2023 17:28

Heimastjórn Djúpavogs telur rétt að ráðast í breytingar á skipulagi á Djúpavogi til að bregðast við aukinni umferð ferðafólks um svæðið. Áfram er þrýst á rekstraraðila í verslunar- og þjónustukjarnanum að Búlandi 1 að koma upp salernisaðstöðu.


Fleiri en einn liður á fundi heimastjórnar Djúpavogs í síðustu viku snérist um þessi mál. Við kjarnann stendur eldsneytisstöð N1 sem heimastjórnin taldi vafa um hvort stæðist skipulag. Nú hefur verið staðfest að þau mál eru í lagi.

Í bókun frá fundinum í síðustu viku lýsir heimastjórnin þó þeirri skoðun sinni að forsendur fyrir staðsetningu eldsneytisdælanna hafi gjörbreyst samhliða stóraukinni umferð við ferðaþjónustu og þungaflutninga. Hvort tveggja hafi neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa og ásýnd svæðisins. Því vill heimastjórnin að ráðist verði í breytingu aðalskipulags til að staðsetja eldsneytisafgreiðsluna fjarri íbúðabyggð í framtíðinni.

Þá eru í gangi viðræður við Samkaup sem reka Kjörbúðina í húsinu um salernisaðstöðu þar við. Heimastjórnin hefur leitað til Heilbrigðiseftirlits Austurlands um hvort rekstraraðilum í kjarnanum sé ekki skylt að sjá viðskiptavinum sínum fyrir salernisaðstöðu þar.

Heimastjórnin telur ennfremur rétt að hefja gerð deiliskipulags fyrir miðbæinn á Djúpavogi, í ljósi stóraukinnar umferðar ferðafólks og uppbyggingar í atvinnulífi. Heimastjórnin leggur áherslu á að fjármagn verði tryggt í verkið á fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir næsta ár.

Að undanförnu hafa staðið yfir framkvæmdir við húsið Sætún, sem áður hýsti lögreglustöðina. Það stendur við hlið Geysis, sem hýsir skrifstofur Múlaþings, við götuna Bakka þar sem vinsælt er að horfa yfir höfnina. Þar á að verða salernisaðstaða fyrir ferðafólk sem áætlað er að opni 23. júní.