Skip to main content

Þegar kviknaði í gömlu Norrænu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. feb 2022 15:05Uppfært 16. feb 2022 15:06

Það var í apríl 1990 sem eldur kom upp í Norrænu, sem var þá í leigusiglingum milli Írlands og Wales. Einn lést í slysinu. Talið er að kveikt hafi verið í en enginn var sóttur til saka vegna þess.


Eldsvoðinn og saga skipsins voru rifjuð upp nýverið í grein í dagblaðinu Swansea Herald í Wales.

Skipið var upphaflega sjósett undir nafninu Gustav Vasa árið 1973 og sigldi í tíu ár milli Malmö í Svíþjóð og Þýskalands. Árið 1983 keypti Smyril Line skipið og varð það að Norrænu sem reglulega sigldi milli Íslands og Norðurlandanna.

Allt fullt af reyk

Á þessum tíma var Norræna gjarnan leigð öðrum skipafélögum sem vantaði ferjur í styttri tíma. Þann 8. apríl árið 1990 var hún í siglingum fyrir írska skipafélagið B&I milli Pembroke Dock í Wales og Rosslare á Írlandi.

Klukkan tíu um kvöldið lét skipið úr höfn í Pembroke Dock með um 200 farþega og 78 í áhöfn. Um miðnætti, þegar siglingin var um það bil hálfnuð, varð áhafnarmeðlimur var við reyk úr tómri káetu. Hann hringdi brunaboða en skipið fylltist fljótt af reyk.

Ferjunni var snúið við og áhöfnin sýndi skjót viðbrögð við að lágmarka skaðann. Það kom þó ekki í veg fyrir að einn farþegi, sem var tveimur hæðum ofar en þar sem reykurinn kom upp, létist úr reykeitrun. Tugir farþega og áhafnarmeðlima þurftu aðhlynningu.

Ekkert óviljaverk

Lögreglan hóf rannsókn á upptökum eldsins sem talið var að hefði verið í dýnu eða pappír og ekkert óviljaverk. Rannsóknin leiddi þó aldrei til ákæru.

Í Swansea Herald er bent á að eldsvoðinn hafi verið einn þriggja mannskæðra í ferjum á tveimur dögum. Daginn eftir létust 200 manns þegar brennuvargur kveikti í Scandinavian Star sem sigldi milli Danmerkur og Noregs. Sama dag fórust tveir þegar kviknaði í ferju skammt frá Isle of Wight við suðurströnd Englands.

Vonin

Gert var við Norrænu og hún sigldi áfram milli áfangastaða í Norðursjó fram til ársins 2004 þegar henni var skipt út fyrir nýrri ferju.

Íslendingar, sem eiga minningar úr gömlu Norrænu, gleðjast eflaust við að heyra af því að hún siglir enn um heimsins höf. Hún var seld til alþjóðlegu kristniboðssamtakanna Operation Mobilisation (OM). Þar fékk skipið nafnið Logos Hope.

Það er skráð á Möltu og kom fyrir helgi til hafnar í Ghana. Um borð eru trúboðar sem dvelja nokkrar vikur í hverri viðkomuhöfn. Þeir fara í land til að sinna hjálparstarfi og boða fagnaðarerindið, en um borð er líka bókamarkaður með um 5.000 titlum um kristna trú.

Nýja Norræna í slipp. Mynd: Smyril-Line