Skip to main content

„Þetta farið að hljóma eins og góður þáttur úr Sopranos seríunni“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2025 11:06Uppfært 15. maí 2025 11:11

„Það er náttúrulega alveg fáránlegt að þurfa að fara að borga þetta með hluta af sorphirðugjöldum og öðrum slíkum liðum sem koma þessum fræðslumálum nákvæmlega ekkert við. Þetta farið að hljóma eins og góður þáttur úr Sopranos seríunni“

Svo mælti Þröstur Jónsson, Miðflokki, á sveitarstjórnarfundi Múlaþings í vikunni þar sem meðal annars var tekin til umræðu sérstakur viðauki við fjárhagsáætlun Múlaþings vegna stóraukins kostnaðar sveitarfélagsins vegna nýrra kjarasamninga kennara. Alls hækkar kostnaður vegna þess um rúmar 190 milljónir króna og til að mæta þeim kostnaði skal hækka sorphirðugjöld íbúa..

Það er á færi sveitarfélaga landsins að hafa umsjón með og bera kostnað af menntamálum en ríkið greiðir þeim tiltekna upphæð per hvern nemanda fyrir vikið. Sú fasta upphæð ekki tekið miklum breytingum frá því að slíkt var samþykkt seint á síðustu öld að sögn Þrastar.

Tillaga forseta sveitarstjórnar, Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, var þó þar samþykkt með öllum atkvæðum. Sú tillaga felur í sér:

A) hækkun tekna vegna útsvars um tæpar 69 milljónir

B) hækkun tekna vegna fasteignaskatta um 10 milljónir

C) hækkun tekna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 55 milljónir

D) hækkun launakostnaðar vegna fræðslu- og uppeldismála um tæplega 191 milljón

E) útgjaldalækkun vegna fræðslu- og uppeldismála um rúmlega 27 milljónir

F) hækkun sorpgjalda um 30 milljónir

G) fjármagnsliðir lækka um 729 þúsund krónur

H) hækkun afskrifta fastafjármuna um rúma milljón

I) heildarlækkun á rekstrarniðurstöðu A-hluta um rétt tæpar 300 þúsund

Í máli forsetans, Berglindar Hörpu, kom fram að hér væri verið að bregðast við óvæntum 191 milljóna króna kostnaði sem ekki var upphaflega gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

„Þetta er umframkostnaður og það er svo með sveitarsjóð að við verðum að finna þessu stað. Það kemur ákveðið til baka með auknum útsvarstekjum frá þessu fólki en það er bara brot. Eins og við gerum alltaf þá búumst við við fólksfjölgun og þannig komi aukatekjur með hækkun útsvarstekna og svo er fasteignaskattur og Jöfnunarsjóður auk lækkunar á rekstri fræðslumála um 27 milljónir. Það er ekkert fast í hendi með þessa liði en vonandi gengur þetta upp en ef við sjáum að svo verður ekki þá auðvitað verðum við að fylgjast með hvernig við ætlum að fjármagna þetta.“