Skip to main content

Þétting miðbæjarsvæðis vekur áhyggjur sóknarnefndar Reyðarfjarðarkirkju

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. maí 2025 14:37Uppfært 20. maí 2025 15:28

Í byrjun ársins auglýsti Fjarðabyggð óverulega breytingu á deiliskipulagi á miðbæjarsvæði Reyðarfjarðar þar sem lagt var til að byggt yrði á hornlóð einni við Reyðarfjarðarkirkju. Í kjölfarið komu fram áhyggjur sóknarnefndar kirkjunnar sem sveitarfélagið hyggst bregðast við.

Auglýsingin snérist um breytingu á lóðanotkun við Búðargötu 3 en Reyðarfjarðarkirkja og safnaðarheimili hennar standa við Búðargötu 1.

Breytingin í samræmi við þá fyrirætlun sveitarfélagsins að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu og gera það meira aðlaðandi en verið hefur. Í auglýsingunni kom fram að um væri að ræða hornlóð sem talið væri áhugavert að byggja á og þannig styrkja þjónustu og gera götumyndina heillegri:

„Með ákvæðum um tveggja hæða hús í mesta lagi er tryggt að skuggavarp að safnaðarheimili sé ekki verulegt. Reynslan sýnir að bílstæði austan við safnaðarheimili eru ekki full nýtt. Einnig má benda á að starfsemi safnaðarheimilisins er yfirleitt ekki á sama tíma og mestar annir eru í Molanum og á skrifstofum svæðisins. Á bílastæði sunnan safnaðarheimilisins eru nú 22 bílastæði, þar af 2 fyrir hreyfihamlaða, á bílastæði í eigu Fjarðabyggðar vestan Molans eru 106 bílastæði, þar af 6 fyrir hreyfihamlaða. Gera má ráð fyrir að leggja meigi 17 bílum austan við lóð Vegagerðarinnar, á móti kirkjunni.“

Athugasemdir komu þó fram frá sóknarnefndinni í kjölfarið auk annarra íbúa vegna aðgengismála og lýsingar við götuna og lét skipulags- og framkvæmdanefnd Fjarðabyggðar bóka nýverið að tekið verði tillit til þeirra athugasemda og lagt var til að sóknarnefndinni verði í heild boðið til viðtals enda gott samstarf lykilatriði.

 „Að öðru leyti er vísað til markmiða um byggðarmynstur sem sett eru fram í kafla 3.2.2 í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2020-2040. Þar kemur fram stefna um að beina þjónustu, verslun og íbúðum í miðbæi og byggja inn í eyður þar sem hentar, ásamt viðleitni til að þétta eldri byggð þar sem mögulegt er. Ljóst er að fara þarf varlega og vanda til verka, ekki aðeins vegna nálægðar við kirkju og safnaðarheimili heldur einnig vegna þess að um mikilvægt miðsvæði á Reyðarfirði er að ræða.“

Yfirlitsmynd af miðbæjarsvæði Reyðarfjarðar en þar má sjá kirkjuna og safnaðarheimili aðeins hægra megin við miðja mynd. Mynd Fjarðabyggð